- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fimmtudaginn 19.júní kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til hafnar hér í Grundarfirði. Skipið heitir Funchal og er með þeim smærri sem koma til Grundarfjarðarhafnar þetta árið. Búið er að leggja mikla undirbúningsvinnu í það að taka vel á móti farþegum þeirra skemmtiferðaskipa sem hingað koma. Blíðskapar veður tók á móti gestum þessa fyrsta skips sumarsins, sem flestir voru franskir. Kynningarbás hafði verið komið fyrir niður við höfn þar sem fólk gat fengið upplýsingar um það sem um var að vera í bænum þennan dag. Það sem gestum var meðal annars boðið upp á var söngur leikskólabarna, sölubásar við höfnina, fólk í íslenska búningnum, hestasýning auk þess sem áhöfn skipsins mætti grundfirskum ungmennum í fótbolta. Ekki var annað að sjá en að fólk hafi verið mjög áhugasamt um það sem í boði var og allir sammála um að þessi frumraun hafi tekist vel og dagurinn vel heppnaður í alla staði. Hér að neðan má sjá myndir sem Ingi Hans Jónsson tók við komu skipsins.