Leikhópurinn Lotta sýnir glænýtt íslenskt leikrit um Mjallhvíti og dvergana sjö í Þríhyrningnum, laugardaginn 11. júní nk kl. 13:00. Þetta er fimmta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi.
Leikgerðina um Mjallhvíti og dvergana sjö gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er fyrsta leikritið sem hún skrifar en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið en auk Önnu koma þar að verki Rósa Ásgeirsdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson og Baldur, Helga og Snæbjörn Ragnarsbörn.