Síldveiðiskipið Krossey SF 20 frá Hornafirði fékk 650 tonn af síld rétt fyrir utan Grundarfjörð í gærkvöldi og í dag. Jón Þorsteinsson háseti á Krossey sagði í samtali við Skessuhorn að þetta væri fín síld og fer hún öll til manneldis. “Við tókum fimm köst og í fyrsta kastinu voru einungis 50 tonn en í síðasta kastinu fengum við 200 tonn.” Segir Jón að Krosseyin sé nú á leið með aflann til vinnslu á Hornafirði. ,,Það er mikið minna af síld núna í Grundarfirðinum en í janúar síðastliðnum þegar við vorum þar síðast á veiðum. En við erum líka mikið fyrr á ferðinni. Við höfum einnig orðið varir við síld út af Vestmannaeyjum,” bætir Jón við. Hann segir óvíst um hvort skipið taki næsta túr á Grundarfjörð. “Ætli við prófum ekki að finna síld fyrir sunnan landið. Það er mikið styttra stím fyrir okkur á miðin,” sagði Jón.
Á myndinni er Krosseyin að taka síðasta kastið og dælir síldinni um borð. Í því voru 200 tonn af úrvalssíld sem öll fer til manneldis.
Sjá greinina á www.skessuhorn.is