Orkan opnar í Grundarfirði

Bensínorkan ehf. vinnur nú að því að opna bensín- og olíustöð við Suðurgarð, smábátabryggjuna hér í Grundarfirði. Í dag, miðvikudag, er ráðgert að dælt verði á fyrsta bílinn en stöðin verður formlega opnuð á laugardaginn kemur með viðhöfn. Sjá nánar á heimasíðu Orkunnar.

Útskrift starfsmanna

Laugardaginn, 28. október brautskráðust þær Eydís Lúðvíksdóttir og Kolbrún Dröfn Jónsdóttir frá framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands með 30 eininga Dipl.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á nám og kennslu ungra barna. Eydís er starfsmaður í Grunnskóla Grundarfjarðar og Kolbrún á Leikskólanum Sólvöllum. Þeim stöllum eru færðar innilegar hamingjuóskir með áfangann!   Eydís og Kolbrún við útskriftina

Tjón á húsnæði grunnskóla í óveðrinu

Í óveðrinu aðfaranótt sl. sunnudags fauk skyggni, sem er yfir inngangi við suðurenda Grunnskóla Grundarfjarðar, ásamt þakplötum og endaði á sparkvellinum. Girðing umhverfis sparkvöllinn skemmdist talsvert en gervigrasið slapp.  

Æfingar á sparkvelli

Í dag, 6. nóvember, verða engar æfingar á sparkvelli vegna tjóns sem varð í ofsaveðrinu um helgina. 

Óveðrið sunnudaginn 5. nóvember

Eins og öllum er vel kunnugt um gekk yfir mikið stórviðri í gær.  Þessu hafði verið spáð í síðustu viku og var m.a. birt viðvörun til íbúa Grundarfjarðar á heimasíðu sveitarfélagsins.  Segja má að fólk almennt hafi brugðist vel við og komið öllum lausum hlutum í skjól.  Þetta varð m.a. til þess að tjón varð minna en ella hefði getað orðið.  Bæjarstarfsmenn og hafnarvörður gerðu einnig það sem í þeirra valdi stóð.  Meðal annars fóru starfsmenn áhaldahússins um og bentu fólki á ef lausir munir voru úti.  Í höfninni var allt gert klárt á föstudag og laugardag. 

Rökkurdagar

Upplestrarkvöld sem vera átti á Kaffi 59 sunnudaginn 5. nóvember nk. fellur niður vegna forfalla rithöfunda.

Slæm veðurspá fyrir helgina

Mjög slæm veðurspá er fyrir aðfaranótt nk. sunnudags, 5. nóvember, allt að 50 m/s í hviðum. Íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja eru minntir á að ganga vel frá öllum lausamunum á lóðum sínum þannig að þeir fjúki ekki og valdi tjóni. Jarðvinnuverktakar eru jafnframt minntir á að ganga frá lausu jarðefni á þeirra vegum innan bæjarins.  

Kynning á félagsstarfi unglinga

Í gær, fimmtudaginn 2. nóvember, stóð íþrótta- og tómstundanefnd fyrir opnum kynningarfundi á félagsstarfi unglinga hér í Grundarfirði. Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Eden sögðu frá vetrarstarfinu og því sem væri framundan. Þóra Margrét Birgisdóttir, forvarnarfulltrúi Snæfellinga, fór yfir þau verkefni sem hún hefur staðið fyrir í forvarnarmálum og kynnti það sem er á döfinni í vetur. Hún sagði einnig frá Listahátíðinni Berserkur 2006 sem haldinn var í sumar. UMFG kynnti þær greinar sem í boði eru fyrir unglinga í 8. – 10. bekk, frjálsar íþróttir, blak og fótbolta. Fulltrúar úr hverri íþróttagrein sögðu frá starfinu. Að lokum fór Elsa Björnsdóttir yfir vetrarstarfið hjá unglingadeildinni Pjakk, en starfið hefst í næstu viku.  

Upplestur skálda og rithöfunda

Frá Bókasafni Grundarfjarðar: Örstutt samantekt um skáldin sem lesa upp á Rökkurdögum er á síðu Bókasafns Grundarfjarðar.

Kynning á félagsstarfi unglinga í Grundarfirði

Opinn kynningarfundur á félagsstarfi unglinga í Grundarfirði verður í kvöld, fimmtudaginn 2. nóvember, kl. 19.30 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar.   Unglingar segja frá því félagsstarfi sem þeir taka þátt í og hvað er á döfinni í vetur.   Mætum öll og sýnum málefnum unglinga áhuga!   Foreldrar unglinga í 8.-10. bekk eru sérstaklega hvattir til að mæta.   Íþrótta- og tómstundanefnd