- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eins og öllum er vel kunnugt um gekk yfir mikið stórviðri í gær. Þessu hafði verið spáð í síðustu viku og var m.a. birt viðvörun til íbúa Grundarfjarðar á heimasíðu sveitarfélagsins. Segja má að fólk almennt hafi brugðist vel við og komið öllum lausum hlutum í skjól. Þetta varð m.a. til þess að tjón varð minna en ella hefði getað orðið. Bæjarstarfsmenn og hafnarvörður gerðu einnig það sem í þeirra valdi stóð. Meðal annars fóru starfsmenn áhaldahússins um og bentu fólki á ef lausir munir voru úti. Í höfninni var allt gert klárt á föstudag og laugardag.
Þrátt fyrir þessar aðgerðir fór það svo að tjón varð á þaki grunnskólans. Um er að ræða þak sem til stóð að yrði yfir viðbyggingu við verknámsaðstöðuna en veggir voru óbyggðir. Þakið fauk á sparkvöllinn og skemmdi grindverk umhverfis hann að hluta. Einnig færðist til prammi í höfninni og smábátabryggjan fluttist til um breidd sína. Unnið er að því að hreinsa upp brakið eftir þakið og smábátabryggjan verður síðar færð í sitt venjulega lægi.
Ástæða er til þess að þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir góð viðbrögð og ekki síður björgunarsveit og starfsmönnum bæjarins sem stóðu vaktina í veðurhamnum alveg frá miðnætti á laugardag og fram að hádegi á sunnudeginum.