- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar þann 15. september sl. var bæjarstjóra falið umboð til að ganga til samninga við arkitektastofuna Zeppelin í Garðabæ um skipulagsverkefni fyrir bæinn.
Eigandi Zeppelin er Orri Árnason arkitekt sem þekkir vel til aðstæðna í Grundarfirði, enda uppalinn hér.
Um er að ræða umfangsmikil verkefni við deiliskipulagningu og tilteknar breytingar á gildandi aðalskipulagi.
Fyrsti áfanginn felst í að deiliskipuleggja nýtt íbúðahverfi við vestanverða Grundargötu. Ætlunin er að þeim áfanga ljúki fyrir áramót.
Í öðru lagi verður farið í skipulag miðbæjar, en eins og margir muna, t.d. frá íbúaþingi í mars sl., þá er það atriði sem íbúar hafa mikinn áhuga á; að „ramma betur inn“ miðbæinn og skapa aðlaðandi miðbæjarmynd. Ennfremur er ætlunin að taka íþróttasvæðið sérstaklega til skoðunar og horfa til framtíðaruppbyggingar þar. Það hefur til dæmis lengi verið í farvatninu að þegar heita vatnið kæmi til sögunnar myndu Grundfirðingar hugsa sundlaugarmál sín upp á nýtt. Tjaldsvæði þarf einnig að skipuleggja, hugsanlega í tengslum við íþróttasvæðið.
Að lokum er ætlunin að taka framtíðarbyggingarsvæði í Grafarlandi austan Gilóss til skipulagningar. Bærinn keypti Grafarland árið 2001 og í gildandi aðalskipulagi er þar gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhverfis í framtíðinni.
Í allri skipulagsvinnunni verður jafnframt hugað að tengingu þessara svæða, t.d. hvernig miðbær, íþróttasvæði og íbúðarhverfi í Grafarlandi tengist á sem bestan hátt.
Skipulagsmál verða því eitt af stærstu verkefnum bæjarins á næstunni, en markmiðið er að reyna að ljúka þessari vinnu um mitt næsta ár.