- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Framhaldsskóli Snæfellinga
- tímamótaákvörðun -
Yfirlýsing frá bæjarstjórnum Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar og hreppsnefnd Helgafellssveitar
Í dag var gefin út í menntamálaráðuneytinu yfirlýsing umaðhafinn verði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi, sem hefji starfsemi haustið 2004.
Bæjarstjórnir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Snæfellingar allir fagna innilega þessari ákvörðun menntamálaráðherra. Með því að leggja áherslu á gott aðgengi að menntun í heimabyggð er stigið eitt veigamesta skrefið til eflingar samfélagsins á Snæfellsnesi.
Um leið er minnt á að bættar samgöngur eru ein af meginforsendum þess að byggðarlögin eiga nú kost á að standa saman um þetta mikilvæga verkefni.
Framhaldsskóli á svæðinu er ósk íbúanna um að njóta þeirra gæða sem samfélag 21. aldarinnar býður upp á. Hann mun hafa þau áhrif að ungmenni geta notið menntunar í heimabyggð. Fjölskyldurnar og samfélagið allt þurfa þá ekki lengur að sjá á bak ungmennum sínum til náms fjarri heimilunum með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Starfsemi framhaldsskóla mun auk þess hafa í för með sér margvíslega styrkingu þjónustu, aukna fjölbreytni starfa á svæðinu og ný tækifæri.
Fulltrúar sveitarstjórnanna munu á næstunni, í samráði við fulltrúa menntamálaráðuneytisins, vinna að mótun og undirbúningi að starfsemi framhaldsskólans, með þann metnað, framtíðarsýn og bjartsýni í farteskinu, sem einkennt hefur óskir og undirbúningsvinnu Snæfellinga fram að þessu.
Snæfellsnesi, 6. febrúar 2003.