- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Eins og margir hafa nú þegar heyrt hef ég tilkynnt að ég muni láta af starfi bæjarstjóra að afstöðnum sveitarstjórnakosningum sem fram fara 27. maí n.k.
Mér finnst rétt að gera aðeins grein fyrir þessari ákvörðun.
Í sumar verða 11 ár frá því ég tók við starfi sveitarstjóra, eins og það hét þá. Ég hef stundum sagt sjálf að starf bæjarstjóra/sveitarstjóra eigi ekki að vera ,,ævistarf”. Það sé nauðsynlegt að sama manneskjan sé ekki of lengi í þessu starfi, þó einnig megi færa rök fyrir því að of tíð skipti séu heldur ekki heppileg. Hér gildir það sama og oft áður, að meðalhófið sé best, en engin ein rétt skoðun er til á þessu.
Í þessi 11 ár hef ég starfað sem ópólitískur bæjarstjóri, sem þýðir að ég hef ekki tekið þátt í starfi stjórnmálaflokka og haldið til hlés eigin stjórnmálaskoðunum. Undanfarnar vikur hefur hið pólitíska landslag hér verið að breytast. Meirihlutasamstarfi síðustu þriggja kjörtímabila lýkur í vor og breytingar eru fyrirséðar, á þann veg að líklega verða hér aðeins tvö framboð í kosningum í vor. Hinar pólitísku línur munu skerpast þar sem annað hvort framboðanna mun fá ,,hreinan meirihluta” og sitja við stjórnvölinn. Fyrir mig persónulega hef ég metið þetta heppilegan tímapunkt til breytinga.
Margt hefur á dagana drifið á ellefu árum en kveðjuorð bíða betri tíma. Ég er alls ekki hætt, ég mun starfa fram yfir kosningar þegar ný bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa tekið við. Það eru fjölmörg verkefni í gangi og ekki efni til annars en að halda þeim áfram.
Grundarfirði, 22. mars 2006,
með kveðju
Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri