- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag laugardaginn 5. apríl fór fram vígsla hafnarmannvirkis, 100 metra lengingar Norðurgarðs (stóru bryggju) Grundarfjarðarhafnar.
Í grenjandi sunnanátt hópaðist prúðbúinn mannfjöldinn niður á bryggju þar sem fram fór stutt en hátíðleg athöfn.
Sóknarprestur Grundfirðinga, sr. Helga Helena Sturlaugsdóttir, blessaði mannvirkið og alla sem þar munu um fara, við vinnu sína á sjó eða landi eða annarra erinda. Að því loknu klipptu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og yfirmaður íslenskra hafnamála og Björg Ágústsdóttir hafnarstjóri á ,,borðann” sem sveiflaðist fram og til baka í rokinu. Hafnarstjóri lýsti svo mannvirkið formlega tekið í notkun, þó reyndar hafi menn verið búnir að taka forskot á sæluna í dálítinn tíma.
Í samkomuhúsinu var svo boðið til veislu verktökum, samstarfsaðilum og yfirmönnum hafnamála, nágrönnum og fulltrúum helstu viðskiptavina við stóru bryggju. Fyrir utan nokkuð hefðbundin ræðuhöld lék Lúðrasveit Tónlistarskólans (fullorðnir) nokkur lög við góðar undirtektir og söngsveitin 6 í sveit (eða 5 í bili) létti gestum lund yfir veitingum.
Allt fór vel fram, eins og við mátti búast og létu gestir sunnanrigningu og rok ekkert á sig fá. Það góða við sunnanáttina okkar er nefnilega það, að hana styttir alltaf upp um síðir – a.m.k. eru ekki fordæmi fyrir öðru!
Lýsing:
Lenging Norðurgarðs (stóru bryggju) Grundarfjarðarhafnar með 100 metra langri og 40 metra breiðri fyllingu, stálþilskanti að innanverðu og ölduvörn að utanverðu.
Dýpi við lengda bryggju er 8 metrar.
Framkvæmdaraðili:
Hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar en Siglingastofnun Íslands annaðist tæknilegan undirbúning, umsjón og eftirlit. Kostnaðarskipting ríkissjóðs og hafnarsjóðs skv. hafnalögum.
Þörf fyrir framkvæmdina:
Skortur á viðlegu- og löndunarplássi í Grundarfjarðarhöfn fyrir stærri skip sem rista 6 m eða meira. Þörf fyrir rýmra athafnasvæði tengt löndun og þjónustu við fiskiskip.
Framkvæmdartími:
2001 – 2003, undirbúningstími öllu lengri.
Framkvæmdin fólst í .... :
Verkið var unnið þannig að fyrst var dælt rúmlega 100.000 m3 af grófu fyllingarefni, sandi og möl, undir mannvirkið áður en efni af landi var keyrt út. Efnisskiptaskurður var útbúinn, vegna stálþilsreksturs, og dælt þaðan lélegu botnefni og í staðinn fyllt með grófu sjávarefni, allt niður á 12 m dýpi, um 3500 m³.
Þegar sjávarfyllingar höfðu staðið nægilega lengi, vegna nauðsynlegs sigs, hófst annar áfangi, að keyra út uppfyllingu úr kjarnaefni af landi. Þá tóku við tveir verkþættir, annars vegar að grjótverja ytri hluta fyllingar og hins vegar að reka niður stálþil innan vert á fyllinguna. Samtals fóru í fyllingu og brimvörn um 50.000 m³ af grjóti, ca. 1/5 af stærra grjóti og 4/5 af kjarnaefni.
Í þriðja lagi var unnið að frágangi lagna og bryggjuþekjan steypt og að lokum var fjórði áfanginn frágangur raflagna og rafmagns í ljósamasturshúsi.
Verktakar (fjórir verkáfangar):
Björgun hf., Reykjavík.
Ísar hf., undirverktaki Íraklettur ehf. (Gústaf Ívarsson Grundarfirði),
Almenna umhverfisþjónustan ehf. (Friðrik Tryggvason Grundarfirði o.fl.) og Kristmundur Harðarson rafverktaki.
Helstu magntölur:
100 metra langur kantur, 40 metra breiður, með 25 metra gafli, samtals 125 kantmetrar;
Malarefniaf sjávarbotni í undirfyllingu eða ,,púða” = 110-115.000 m³
Grjót og kjarni í fyllingu = 50.000 m³
Stálþil, 99 plötur, 1,26 metrar að breidd og meirihluti þeirra 18 metrar að lengd – þó niður í 10 metra lengd, samtals 318,7 tonn að þyngd
Steypt þekjaum 4000 m² eða 800 m³ (þar fyrir utan var steyptur bryggjukantur, ankeri fyrir stálþilsstög og ljósamasturshús), í þekjuna fóru samtals 320 tonn af sementi og 40 tonn af steypustyrktarjárni
Rafmagnslagnirca. 1700 lengdarmetrar og vatnslagnir um 200 metrar
Kostnaður:
Um 185-190 millj. kr. Verkið stóðst áætlun.