Mynd fengin að láni af síðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur: https://www.facebook.com/stofnunvf/
Í dag, 15. apríl 2020, er hátíðisdagur á Íslandi. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er 90 ára. Vigdís var fyrsta konan sem kosin var til forseta þjóðríkis í frjálsum kosningum í heiminum. Embætti forseta gegndi hún í 16 ár, frá 1980 til 1996.
Við drögum íslenska fánann að húni og minnumst samfylgdar okkar með Vigdísi. Auk þess að gegna embætti forseta og setja mark sitt á það, þá kenndi Vigdís okkur frönsku í sjónvarpinu, hún var leikhússtjóri, tungumál heimsins voru henni hugleikin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur um tungumál heimsins var stofnuð. Í opinberum heimsóknum fékk Vigdís börnin með sér að gróðursetja tré, eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir.
Liður í hátíðarhöldum vegna verslunarafmælis í Grundarfirði árið 1997, 100 ár í Nesinu, var opinber heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur forseta. Í þeirri heimsókn gróðursetti hún tré í verðandi skógræktarreit Grundfirðinga, Brekkuskógi, undir Hellnafellum.
Þegar 35 ár voru frá forsetakjöri Vigdísar Finnbogadóttur, árið 2015, héldu skógræktarfélögin á Íslandi upp á tímamótin með því að gróðursetja þrjú tré hvert, til heiðurs Vigdísi. Í indælu veðri söfnuðust ungir sem aldnir saman í Brekkuskógi í Grundarfirði og gerðu sér glaðan dag.
Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir frá 1997 og 2015.
Til hamingju með afmælið Vigdís og takk fyrir allt!