- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt á vef Skessuhorns 4. október 2009: |
Í gær hófst samæfing björgunarsveita á sjó við Grundarfjörð og í Kolgrafarfirði. Aðstæður til æfinga voru töluvert erfiðar og reyndi mjög á mannskap en það gerði verkefnið enn meira krefjandi. Á æfinguna voru mættir 17 hópar frá björgunarsveitum frá Akranesi, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Árborg, Suðurnesjunum, Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsbæ en æfinginn var skipulögð af björgunarsveitunum á Snæfellsnesi. Hún er liður í landsæfingu Landsbjargar og verður önnur æfing haldin helgina 24. október sem snýr að björgun á landi.
Björgunaræfinginn fólst í því að leyst voru 27 verkefni af ýmsum toga. Má þar nefna mann sem slasaðist á skotæfingasvæðinu inni í Kolgrafarfirði en það var mjög krefjandi verkefni þar sem þurfti að fara undir brú á slöngubátnum þar í miklum straumi. Breiðleitaræfing var á Grundarfirði sem unnin var með stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. |
Þá var æfð leitarköfun innan hafnar þar sem bílflaki hafði verið komið fyrir með brúðum og þurftu kafarar að ná þeim úr flakinu og koma í land, fara um borð í bát með dælur og athuga með slasaða um borð í báti. Að lokum var stórt hópslys við klettótta strönd þar sem sækja þurfti slasaða sjóleiðina og koma þeim til Grundafjarðar.
Æfingunum var stjórnað frá húsnæði slysavarnarfélagsins í Grundarfirði og voru þar Eyþór Garðarsson og Ketilbjörn Benediktsson frá Klakki Grundarfiði, Davíð Óli Alexandersson, Þór Magnússon og Þórarinn Steingrímsson frá Lífsbjörgu í Snæfellsbæ og Sumarliði Ásgeirsson frá Berserkjum í Stykkishólmi við stjórnvöllinn ásamt Sigurði Viðarssyni frá höfuðstöðvum Landsbjargar. Var það samdóma álit þeirra sem þátt tóku í æfingunni að vel hafi tekist til. Um 150 manns komu að æfingunni á einn eða annan hátt.
Sjá fleiri myndir Stefáns Ingvars Guðmundssonar og frásögn í næsta Skessuhorni.