- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Við áramót þökkum við samferð á liðnu ári og óskum þess að nýtt ár megi færa okkur farsæld. Persónulega þakka ég Grundfirðingum góð og árangursrík samskipti á árinu 2011.
Á árinu voru haldnir tveir íbúafundir, sem báðir voru vel sóttir. Þar gafst tækifæri til beinnar samræðu við íbúa um málefni samfélagsins. Ljóst er að framhald verður á þessum fundum á nýju ári.
Nokkrar breytingar urðu á bæjarskrifstofunni en þar hefur stöðugildum verið fækkað. Nýr skrifstofustjóri tók til starfa og embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og markaðsfulltrúa voru lögð niður. Nú er þjónusta skipulags- og byggingarfulltrúa keypt af Snæfellsbæ sem er eitt dæmi um góða samvinnu sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem er almennt með ágætum. Vilji er hjá Grundarfjarðarbæ til að efla samstarf sveitarfélaganna enn frekar og mega pólitískir vindar ekki tefja þá þróun. Reynslan hefur kennt okkur að við náum mun betri árangri með öflugri samvinnu. Í því sambandi má benda á að sveitarfélögin hafa samþykkt að stofna svæðisgarð sem er fjölþætt samstarf fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka á svæði sem myndar samstæða landslags- og menningarlega heild. Samstarfið byggist á sameiginlegri sýn um sérstöðu svæðisins og samtakamætti við að hagnýta sérstöðuna og vernda hana.
Í mars var haldin sýningin „Heimurinn okkar“ þar sem fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í Grundarfirði kynntu starfsemi sína. Fullvíst má telja að mörgum hafi komið á óvart hversu fjölbreytt starfsemi er í sveitarfélagi sem telur liðlega 900 manns.
Í september var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn í húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga og var það fjölmennasti fundur sem haldinn hefur verið í Grundarfirði. Fundurinn tókst afskaplega vel og má fullvíst telja að fleiri slíkir fundir verði haldnir hér.
Í upphafi sumars var tekin upp þriggja tunnu sorpflokkun en það er stefna Grundarfjarðarbæjar að minnka úrgangsmyndun í sveitarfélaginu og draga úr magni sorps sem fer til urðunar. Hægt er að draga úr urðun um 60-80% með því að flokka sorp sem fellur til á heimilum.
Rekstur Grundarfjarðarbæjar gengur síst verr en fjölmargra annarra sveitarfélaga. Vissulega þarf að glíma við ýmis snúin verkefni en ekkert þeirra er óleysanlegt. Eins og kunnugt er hefur Grundarfjarðarbær um nokkurt skeið verið ofarlega á lista yfir skuldsettustu sveitarfélög landsins og vega þar þungt gengisbundin lán sem ekki fengust leiðrétt fyrr en í lok ársins 2011 í samræmi við dóma um sambærileg lán. Við þá leiðréttingu munu skuldir lækka umtalsvert þó enn séu þær yfir viðmiðunarmörkum nýrra sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt þeim lögum mega skuldir ekki vera yfir 150% af reglulegum tekjum. Áætlað er að skuldir bæjarins verði liðlega 190% af tekjum í árslok 2012. Skuldahlutfallið fór hæst í 251% árið 2009.
Við þann forsendubrest sem varð í samfélaginu haustið örlagaríka árið 2008, var í kjölfarið farið mörgum orðum um að það ætti standa vörð um „grunnþjónustuna“. Það er einmitt sú þjónusta sem sveitarfélög eru að sinna. Engin opinber skilgreining er hins vegar til á því í hverju grunnþjónusta felst.
Bæjarstjórn Grundarfjarðar er einhuga í því að skuldbindingar gagnvart íbúum eigi að vera í forgangi og skuldbindingar við lánardrottna koma þar á eftir. Að sjálfsögðu mun Grundarfjarðarbær standa við allar sínar skuldbindingar hér eftir sem hingað til, hvers eðlis sem þær eru.
Reynt hefur verið eftir fremsta megni að draga úr rekstrarkostnaði bæjarins og stilla gjaldskrám i hóf. Komið er til móts við barnafjölskyldur með því að hækka afslátt á leikskóla og heilsdagsskóla fyrir 2. barn og áfram er ekkert gjald greitt fyrir 3. barn. Gjaldskrá leikskóla hækkar um 2% nú um áramótin og eru leikskólagjöld því að lækka að raungildi. Þá var afsláttur fasteignaskatts til öryrkja og ellilífeyrisþega hækkaður til samræmis við verðlagshækkanir. Aðrar gjaldskrár hækka almennt sem nemur verðlagshækkunum.
Framkvæmdir voru ekki miklar á árinu en stærsta einstaka framkvæmdin var ný flotbryggja fyrir smábáta sem mun bæta aðstöðu í höfninni til mikilla muna. Sem fyrr er höfnin lífæð Grundarfjarðar og hefur rekstur hennar gengið vel undanfarin ár. Fjöldi skemmtiferðaskipa sem koma til Grundarfjarðar hefur verið stöðugur undanfarin ár en gert er ráð fyrir fjölgun á komandi sumri og hafa alls 18 skip verið bókuð.
Sem fyrr var menningarlíf með miklum ágætum í Grundarfirði. Lúðrasveitir Tónlistarskólans voru efldar, nýlega endurvakinn leikklúbbur bauð upp á mjög eftirminnilega sýningu og bæjarhátíðin „Á góðri stund“ tókst vel í höndum nýstofnaðs „Hátíðarfélags Grundarfjarðar“ sem tók að sér umsjón með hátíðinni. Rökkurdagar voru svo haldnir að venju á haustdögum.
Íþróttalíf var með miklum blóma sem endranær og má þar nefna sigur kvennaliðs UMFG í 3. deild í blaki og frábæran árangur Grundfirðinga í golfi svo eitthvað sé nefnt. Starf UMFG er öflugt og eiga forsvarsmenn félagsins þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf.
Á árinu 2012 verða sett ný markmið til að stefna að, hver sem verkefni okkar eru. Það er enginn sem sigrar fyrir okkur og við sigrum ekki hvert og eitt, en ef allir leggjast á eitt, náum við árangri.
Ég óska Grundfirðingum og Snæfellingum öllum gleðilegs nýs árs.
Björn Steinar Pálmason
bæjarstjóri