- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær efndi til starfsmannadags með
öllum starfsmönnum bæjarins föstudaginn 19. október síðastliðinn. Haldið var í Borgarfjörðinn og
byrjað á vinnudegi á Hótel Borgarnesi.
Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri og Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar,fóru yfir innri og ytri málefni er snúa að bæjarfélaginu. Þá kynnti Sigurlaug R. Sævarsdóttir, skrifstofustjóri , niðurstöður starfsmannakönnunar sem nýverið var framkvæmd í fyrsta sinn meðal allra starfsmanna Grundarfjarðarbæjar. Samkvæmt könnuninni eru starfsmenn ánægðir og sáttir við margt en einnig komu ábendingar um ýmislegt sem má bæta. Unnið verður frekar úr niðurstöðum könnunarinnar og gerðar áætlanir um úrbætur þar sem þess er þörf.
Eftir hádegi tók Eyþór Eðvarðsson, vinnusálfræðingur hjá Þekkingarmiðlun, við keflinu. Hann fjallaði um starfsanda og starfsánægju og vakti mikla kátínu meðal starfsmanna þegar hann brá sér í hin ýmsu persónuleika gervi. Í gegnum daginn unnu starfsmenn verkefni sem snúa að þeim sjálfum, þeirra starfi og starfsánægju, ræddu í minni hópum og einnig fóru fram líflegar umræður með öllum í salnum.
Að vinnufundinum loknum var farið í skoðunarferð um Borgarnes undir leiðsögn sveitarstjóra Borgarbyggðar, Páls Brynjarssonar. Þá var Safnahús Borgarbyggðar heimsótt og ljósmyndasýningin „Börn í hundrað ár“ skoðuð. Veitingar voru bornar fram undir snilldar brúðusýningu Bernd Ogrodnik á efri hæð Safnahússins. Síðasti viðkomustaður var veitingahúsið Fossatún þar sem snæddur var kvöldverður.
Fram kom í upphafi dags að bæjarstjórn vill leggja áherslu á að rækta mannauðinn og efla Grundarfjarðarbæ sem góðan vinnustað. Það er mál manna að dagurinn hafi heppnast sérlega vel, hann var uppbyggilegur og skemmtilegur. Gleði og samhugur ríkir meðal starfsmanna Grundarfjarðarbæjar eftir vel heppnaða vinnu og samveru.