- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Boðið er upp á námskeið í skapandi vegglist með Dagnýju Rut, sem haldið verður 8. til 18. ágúst nk. Námskeiðið er í boði fyrir börn fædd 2006 - 2010.
Leiðbeinandi námskeiðsins er Dagný Rut Kjartansdóttir. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í kennsluréttindum með áherslu á listsköpun frá Háskóla Íslands sumarið 2022 og tekur til starfa í Grunnskóla Grundarfjarðar í haust. Lokaverkefni hennar í B. Ed ber heitið “Sköpun og flæði, möguleikar í myndmenntarkennslu sem tæki til aukinnar núvitundar”. Hún leggur mikla áherslu á að efla börnin í sjálfstæði í vinnu og nota listina til þess að auka andlega vellíðan og sjálfsöryggi.
Námskeiðið verður haldið eftir hádegi alla daga (mán-fös) frá kl. 13-15/16, en ávallt er tekið mið af veðri. Ef vel gengur og veðrið leikur við krakkana þá gætu dagar lengst til þess að nýta tímann sem best, en það er gert í samráði við leiðbeinandann.
Unnið verður að því að efla listsköpun, sjálfstæði og sjálfsöryggi hjá börnunum. Að þeim sé gefið tækifæri til að eflast í hópastarfi og læra að vinna við mismunandi aðstæður og með mismunandi efnum. Hér fá börnin tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggingu listastarfs í bænum ásamt því að fegra umhverfið og vera höfundar að upprennandi listsköpun í bænum. Kennt verður að virða eignarhald og muninn á milli listsköpunar og skemmdarverka.
Skráning fer fram á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar, hér og umsóknir skulu berast fyrir kl. 13:00 föstudaginn 5. ágúst nk.
Verð á námskeiðinu verður haldið í lágmarki og verður eitt fast gjald fyrir þessa níu daga, 7.000 kr.
Systkinaafsláttur er veittur fyrir annað barn sem nemur 30% af verði og fyrir þriðja barn 70%.
Frekari spurningum má beina til Ólafs Ólafssonar íþrótta- og tómstundafulltrúa Grundarfjarðarbæjar í netfangið ithrott@grundarfjordur.is