Fjölbrautaskóli Snæfellingaer kominn með eigin vefsíðu. Vinnsla síðunnar er á byrjunarstigi, lögð er áhersla á að koma grunnupplýsingum á framfæri til að byrja með, en meira efni mun síðar bætast við. 

Dagana 28., 29. og 30. apríl sl. voru haldnir opnir kynningarfundir um stöðu og undirbúning verkefnisins með íbúum á þétttbýlisstöðunum á norðanverðu Nesinu, auk þess sem 9. og 10. bekkir grunnskólanna á svæðinu fengu sérstaka kynningu á hinum fyrirhugaða skóla.

Glærur sem notaðar voru á kynningarfundunum er hægt að nálgast á pdf.formi á síðunni.

 

Á forsíðu Grundarfjarðarsíðunnar er tengill sem smellt er á til að fara inn á vefsíðu Fjölbrautaskólans. Samskonar tengill er á vefsíðum Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar.

Hér að neðan getur að líta merki skólans, sem hannað hefur verið af Ástþóri Jóhannssyni, grafískum hönnuði, Dal, Eyja- og Miklaholtshreppi.

Lauslega endursagt er merkið hugsað eitthvað á þessa leið;

Grunnurinn er tölvuskjár (einkennandi fyrir stefnu og sýn skólans). Blái liturinn táknar kraft og kynngimagn Snæfellsnessins, hvíti liturinn er Snæfellsjökullinn sjálfur, hinir hringirnir standa fyrir sveitarfélögin á svæðinu og fyrir fjölbreytileikann, bæði fjölbreytileika náms sem stefnt er að því að ná fram með hagnýtingu tækni og nýrra leiða og einnig áhersluna á að nemendur eru hver öðrum ólíkir, fjölbreytileiki mannlífsins. Hringlaga formið táknar ennfremur óendanleikann, hringurinn byrjar hvergi og endar hvergi, rétt eins og það sjónarmið að nám er eilífðarverkefni; svo lengi lærir sem lifir.

 

Það athugist að heiti skólans verður reyndar ekki með neðangreindum hætti í útfærslu merkisins.