- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í gær, miðvikudag 21. júlí, varð verulegt vatnstjón í samkomuhúsinu í Grundarfirði. Vatnið átti upptök sín úr lögn í eldhúsi.
Vatnið flæddi um eldhús og fram í báða sali, efri salinn sem er teppalagður og neðri salinn sem er lagður gegnheilu parketi.
Slökkviliðsmenn komu um leið á staðinn og dældu upp vatninu.
Fulltrúar VÍS, sem er vátryggingarfélag bæjarins, brugðust hratt og vel við tilkynningu bæjarins um tjónið og sendu verktaka í gærkvöldi til að hefja þurrkun. Settu þeir upp blásara til að þurrka upp raka og gera aðrar ráðstafanir og eru þeir enn að störfum, í dag, fimmtudag.
Of snemmt er að segja til um framhaldið á þessu stigi, en ljóst er að tjónið er umtalsvert, á gólfefnum, hurðarkörmum, o.fl.
Ekki eru nema níu dagar síðan umtalsvert tjón varð í húsnæði grunnskólans, einnig af völdum vatnsleka.
Söngskemmtunin Sveitalíf 2 - með Jógvan og Friðriki Ómari - átti að vera í samkomuhúsinu í kvöld.
Sú skemmtun færist í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og hefur verið unnið að því í dag að græja húsið og leyfisveitingu fyrir tónleikana.