- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í gærmorgun, mánudag 12. júlí, varð vart við vatnsleka í grunnskólanum. Vatnið hafði þá þegar fundið sér leið um allstórt svæði á báðum hæðum suðaustan til í skólahúsnæðinu.
Vatn flæddi í hornstofu (suðaustur) efri hæðar, fram í miðrýmið og inní litlu stofuna sem snýr út að íþróttahúsi/tónlistarskóla. Vatnið hafði einnig fundið sér leið gegnum lagnastokk, niður á neðri hæðina í hornstofuna stóru og þaðan fram á gang (miðrými).
Orsök lekans er ekki enn þekkt, en ljóst er að vatnið hefur valdið umtalsverðu tjóni, á milliveggjum sem eru bæði úr gifsi og tré, á hurðarkörmum, gólfdúkum og húsgögnum.
VÍS er váryggingarfélag Grundarfjarðarbæjar og brugðust fulltrúar VÍS hratt og vel við tilkynningu bæjarins um tjónið. Verktakar voru sendir til að kanna ástandið, ekki síst veggja, setja upp sérstaka blásara til að þurrka upp raka og gera aðrar ráðstafanir. Þeir munu svo koma aftur síðar í vikunni til að skoða aðstæður og meta þörf fyrir frekari ráðstafanir. Tjónamatsmaður VÍS kemur einnig á næstu dögum þegar umfang tjónsins verður sýnilegra og þá verður lagt mat á viðgerðir og endurbætur. Of snemmt er að segja til um framhaldið á þessu stigi, en allt kapp verður lagt á að rýmið verði tilbúið fyrir upphaf komandi skólaárs. Skólasetning verður samkvæmt skóladagatali mánudaginn 23. ágúst nk.
Bæjarráð fundar miðvikudaginn 14. júlí og byrjar fund sinn á því að skoða aðstæður í skólahúsnæðinu.