Þann 4. október 2002 hófust rennslismælingar á svæði í um 450 metra hæð undir Hafliðagili á tveimur stöðum og stóðu þessar mælingar fram til 21. apríl 2003.

 

Þykja þær vísbendingar sem þarna fengust lofa góðu og ástæða til frekari aðgerða og rannsókna í þeirri von að þarna mætti afla neysluvatns fyrir vatnsveitu Grundarfjarðar í framtíðinni að einhverjum hluta.

Niðurstöður mælinganna á þessu tímabili voru að meðaltali 17,56 lítrar á  sekúndu og var ákveðið í framhaldinu að setja upp rennslisbrunna og drenlagnir  þannig að einangra mætti uppsprettuvatn frá yfirborðsvatni, en eins og kunnugt er er óheimilt undir nokkrum kringumstæðum að nota yfirborðsvatn sem neysluvatn fyrir vatnsveitur.

 

Þann 27. júní 2003 fór undirritaður ásamt Ásgeiri Valdimarssyni, Þorsteini Friðfinnssyni, Kjartani Jósepssyni og Þórólfi Hafstað frá Orkustofnun á umrætt svæði með jarðýtu, brunna og rör og var ákveðið hvaða lindir skildu virkjaðar og hvernig. Í þessari ferð var ákveðið að setja upp rennslisbrunna á þremur stöðum, tveir af þeim er lokið en þann þriðja varð að fresta þar sem við höfðum ekki nægjanlega stóra vél til að komast að því svæði. Þess má geta að sú lind er í 500. metra hæð yfir sjávarmáli og í miklum bratta.

 

Hófust nú mælingar að nýju þann 8. október og hefur verið mælt á  7-10 daga fresti (helst ekki sjaldnar) og standa þær mælingar yfir ennþá.

 

Niðurstöður þeirra mælinga hingað til lofa nokkuð góðu og eru eftirfarandi:

Brunnur 1.>1,29 lítrar á sekúndu.

 Brunnur 2.>2,99 lítrar á sekúndu.

 Brunnur 3.>5,53 lítrar á sekúndu, fullnaðarfrágangi ekki lokið á þessum stað.

Alls er því verið að tala um 9,81 lítrar á sekúndu yfir harðasta tíma ársins.

 

Til fróðleiks er hægt að segja frá því að meðalnotkun vatnsveitunnar síðustu fimmtán mánuði er 21,6 lítrar á sekúndu og er því rennslismagn frá því í vetur 45,42% af meðaltalsnotkun, ég vil þó ítreka að um meðaltöl er að ræða.

 

Nú þessa daganna er beðið færis á því að fara með stóra beltavél til að ganga frá brunni númer þrjú. en eins og er er of mikill snjór á þessu svæði til að það sé framkvæmanlegt.

 

Að lokum vil ég færa öllum þeim fjölmörgu aðilum sem að þessu verki hafa komið með mér bestu þakkir.

 

            Geirfinnur Þórhallsson.