- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Valdís Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin umsjónarmaður vinnuskóla Grundarfjarðarbæjar í sumar. Valdís hefur unnið fjölbreytt störf til sjós og lands, verið verkstjóri í fiskvinnslu, unnið hjá Fiskistofu og róið á bát með föður sínum - en Valdís er með stúdentspróf og 30 tonna skipstjórnarréttindi.
Vinnuskóli fyrir unglinga er starfræktur í 6 vikur á sumri. Í ár hefst hann þann 7. júní og lýkur 15. júlí. Undanfarin sumur hefur Grundarfjarðarbær unnið að því að þróa námsefni og verkefni vinnuskólans.
Í sumar er ætlunin að vinnuskólinn taki upp enn frekari nýjungar í verkefnum fyrir ungt fólk, með áherslu á samfélagsleg verkefni og meiri fræðslu, umhverfismál, vinnuvernd og forvarnir. Valdís mun halda utan um þann undirbúning, ásamt Ólafi Ólafssyni íþrótta- og tómstundafulltrúa Grundarfjarðarbæjar, sem hefur yfirumsjón með vinnuskóla. Gerð verður námsskrá ásamt áætlun um dagskrá námskeiðanna og verður það kynnt betur síðar.
Í fyrra tók Grundarfjarðarbær, ásamt VÍS og Vinnuverndarskólanum, þátt í þróun námsefnis um forvarnir með áherslu á vinnuvernd, sem var nýjung fyrir nemendur í vinnuskólum sveitarfélaga - sjá frétt hér. Sjá einnig erindi bæjarstjóra á forvarnaráðstefnu VíS í mars sl. um þetta efni.
Okkur vantar enn til starfa hópstjóra, sem mun verða Valdísi til aðstoðar við stjórn vinnuskólans. Viðkomandi þarf helst að hafa náð 20 ára aldri, hafa getu til að vinna sjálfstætt, góða hæfni í mannlegum samskiptum auk reynslu og ánægju af að vinna með unglingum. Við leitum að fólki til að taka þátt í skemmtilegu þróunarstarfi með okkur og hvetjum áhugasöm til að sækja um - sjá nánar í auglýsingu hér.
Vinnuskólinn verður svo auglýstur í byrjun maí þannig að unglingarnir geti sótt tímanlega um þátttöku í honum.
Við hlökkum til skemmtilegs og uppbyggilegs sumars með Valdísi og vinnuskólanum okkar!