Eins og kunnugt er stefnir galvaskur hópur tónlistarfólks frá Grundarfirði að því að leggja undir sig einn stærsta skemmtistað landsins, Broadway í Reykjavík, föstudagskvöldið 11. febrúar n.k. Þar verður boðið upp á grundfirska Stjörnumessu, tónlistarveislu matreidda af 12 manna hljómsveit og hvorki meira né minna en 27 söngvurum frá Grundarfirði.

 

Undanfarin ár hefur áhugafólk í Grundarfirði stigið fram á sviðið og sett upp söng- og tónlistarskemmtanir undir merkjum Vorgleðinnar. Ágóðinn hefur runnið til góðra málefna í byggðarlaginu. Stjörnumessan er úrval atriða frá Vorgleðiskemmtunum síðustu ára, salsa, soul og íslenskar söngperlur, flytjendurnir frá tvítugu til sjötugs – ekkert venjulegt fólk! Eða hver vill ekki sjá og heyra syngjandi kennara, vélstjóra, húsmæður, nema, togaraskipstjóra, golfara, gröfustjóra og alla hina sem munu láta ljós sín skína.

 

Vitað er um mikinn áhuga „gamalla Grundfirðinga“ á sýningunni og má búast við því að skemmtunin verði eitt allsherjar ættarmót og vinafagnaður. Hátt í þrjúhundruð manns hafa bókað sig í mat en matseðillinn er sérlega glæsilegur. Borðhald hefst kl. 20 (húsið opnar kl. 19) en skemmtunin sjálf hefst kl. 21.30 og hægt er að mæta á hana eingöngu. Kynnar kvöldsins verða Grundfirðingurinn Brynhildur Ólafsdóttir og tengdasonur Grundarfjarðar Róbert Marshall.

 

Æft hefur verið stíft í margar vikur, lokaæfingin var haldin í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í gærkvöldi og gekk með afbrigðum vel og mikil tilhlökkun í mannskapnum. Einhverjar kvefpestir hafa herjað á tónlistarfólkið að undanförnu, en góður læknir er á staðnum og reynt að bjarga raddböndum.

Vakin er athygli á því að fulltrúar Vorgleðinnar verða í morgunþætti Stöðvar 2, Ísland í bítið í fyrramálið (fimmtudag) og munu taka þar 2-3 lög, auk þess sem hópurinn heimsækir Poppland á Rás 2 eftir hádegi á morgun og Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Grundfirðingar, nær og fjær, og vinir og velunnarar góðrar tónlistar, eru hvattir til að mæta á Broadway og taka þátt í grundfirskri gleði!

Meðfylgjandi myndir voru teknar á lokaæfingu hópsins í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í gærkvöldi:

Ragnar, Ingunn og Hanna Sif

Alla Birgis

Emil og Ketilbjörn slá taktinn

Magnús Álfsson og Lóa Oddsdóttir þenja raddböndin!