Sunnudaginn 17. október var haldin uppskeruhátíð ferðaþjónustuðila í Grundarfirði. Dagurinn hófst á siglingu og sjóstangveiði í hressilegu veðri. Afli var rýr en ánægjan í hámarki. Er í land var komið hélt hópurinn til fundar í Sögumiðstöðinni. Farið var yfir ferðamannavertíðina og ferðaþjónustuaðilar kynntu sig og kynntust öðrum. Margar skemmtilegar hugmyndir voru reifaðar og greinilegt að það er hugur í ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Lokapunktur á góðum degi var svo hátíðarkvöldverður á Hótel Framnesi. Þar gæddi hópurinn sér á ljúffengum kræsingum og móttökuhópur hafnarinnar tók lagið.

Nú hefur verið virkt samstarf ferðaþjónustuaðila í Grundarfirði í rúm tvö ár og árangurinn leynir sér ekki. Mikil gróska er í atvinnugreininni um þessar mundir. Ný ferðaþjónustufyrirtæki eru að taka til starfa og þau eldri eflast og eru að þróa skemmtilegar nýjungar.

 

Í kjölfar þessarar hátíðar hefur verið boðað til vinnufundar 14. nóvember þar sem samstarf ferðaþjónustuaðila í Grundarfirði er í fyrirrúmi, og unnið verður að ýmsum spennandi verkefnum.