Á kortinu má sjá staðsetningu nýju vegprestanna
Á kortinu má sjá staðsetningu nýju vegprestanna

 

Eins og áður hefur komið fram hefur Grundarfjarðarbær undirbúið uppsetningu skilta og merkinga innanbæjar, sbr. þessa frétt á bæjarvef. 

Tekin var upp ný skiltastefna þar sem útlit skiltanna er samræmt innan sveitarfélagsins og stuðst er við nýja og mjög gagnlega handbók um merkingar í náttúru Íslands, www.godarleidir.is  Unnið var í samstarfi við hönnuði hjá Kolofon og má segja að okkar vinna sé frumraun í að þróa nýjar leiðbeiningar á grunni handbókarinnar, fyrir merkingar í þéttbýli. 

Nú er komið að uppsetningu svokallaðra vegpresta og vegvita, en þeir eru einskonar leiðarvísar sem vísa fólki áfram í leit sinni að þjónustu, eins og verslun, veitingum og afþreyingu, og að helstu stofnunum og áningarstöðum. Skiltin eiga að nýtast bæði gestum og nýjum íbúum í bænum, bæði gangandi og akandi.  

 

Úr skiltahandbókinni godarleidir.is

Þjónustuaðilum í bænum var boðin þátttaka með merkingu á þjónustu. Stóð þeim til boða að kaupa á kostnaðarverði eina eða fleiri plötur eða „pílur“ á skiltum sem munu leiða fólk um bæinn. Þjónustuaðilar tóku einnig þátt í að velja staðsetningu skiltanna. Einnig var í boði að kaupa vegvita sem staðsetja mætti nærri fyrirtækjum, en vegvitar eru minni gerð af merkingum og hugsaðir til þess að auka enn frekar sýnileika viðkomandi þjónustu eða áningarstaðar.  

Á hverjum vegpresti er ílangt skilti með QR-kóðum sem vísa á bæjarvef. Annar opnast á götukort bæjarins (nýjustu útgáfu hverju sinni) og hinn vísar á upplýsingar um þjónustu í bænum. 

Nýju skiltin í pakkningunum

Leitað var tilboða í gerð skiltanna og eru þau framleidd af nokkrum fyrirtækjum, öllum innanlands. Notast er við lerki í stoðir skiltanna og kemur það frá Skógarafurðum ehf. í Fljótsdal. Lerkið er fúavarið frá náttúrunnar hendi og fær með tímanum silfrað útlit. Skiltaplöturnar eru prentaðar hjá Myndun ehf. á Sauðárkróki. Sami litur er á skiltunum og í bæjarmerki Grundarfjarðarbæjar, sem er eftir listamanninn Baltasar Samper, og er sá litur einnig á höttum, skóm og hliðarplötum skiltanna. 

Vegprestarnir verða staðsettir á sex stöðum innanbæjar og verða þeir settir niður í næstu viku. 

Næst á dagskrá er svo endurnýjun á skiltunum sitt hvorum megin við aðkomu í bæinn, gömlu Kiwanis-skiltunum, og er sá undirbúningur í gangi. Ennfremur er unnið að endurnýjun fleiri skilta, við listaverk bæjarins o.fl. í því skyni að bæta upplýsingagjöf og „læsileika“ bæjarins.