Grundarfjarðarbær kannar nú áhuga rekstraraðila/þjónustuaðila í sveitarfélaginu til að reka upplýsingamiðstöð fyrir hönd bæjarins í þrjá mánuði í sumar. 

Upplýsingamiðstöð - nánari lýsing 

Talið er að á Snæfellsnes allt komi hátt í ein milljón ferðamanna á ári. Í Grundarfjarðarhöfn munu skv. bókunum koma yfir 70 skemmtiferðaskip með allt að 55.000 gesti sumarið 2024. 

Upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk hefur verið rekin af Grundarfjarðarbæ til síðustu ára, í samstarfi við bókasafnið. Meginstarfsemi og opnunartími er á sumrin og felst í hefðbundinni upplýsingagjöf fyrir gesti og gangandi, um þjónustu og ferðaleiðir á svæðinu, samfélag og fleira. Opnunartími hefur að jafnaði verið 9-17, en frá 8:00 ef skemmtiferðaskip koma snemma í höfn. 

Þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna (fyrir og eftir Covid) hefur starfsemin breyst með tilkomu Gestastofu Svæðisgarðsins Snæfellsness að Breiðabliki, með upplýsingagjöf Gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi og með sífellt betri og aðgengilegri upplýsingum á netinu. Vegna þessa hafa verkefni upplýsingamiðstöðvar dregist talsvert saman síðustu árin, en á móti kemur að þjónusta upplýsingamiðstöðvar hefur aukist á þeim dögum sem skemmtiferðaskip eru í höfn, þar sem skipakomurnar skapa fleiri og stærri “toppa” í viðveru og þjónustu við gesti skipanna. 

Útvistun 

Leitað er eftir aðila sem hefur getu til að taka að sér rekstur meginhluta starfsemi upplýsingamiðstöðvar. Rekstur myndi hefjast kringum 5. - 10. júní nk. og standa út ágúst. Um er að ræða tilraunaverkefni í eitt sumar til að byrja með.

Grundarfjarðarbær leggur til andvirði launa eins starfsmanns á tímabilinu, í samræmi við rauntölur síðustu ára. Auk þess veitir bærinn aðstoð í formi upplýsinga, einkum við upphaf starfseminnar. Reiknað er með samtölum yfir tímabilið, til að taka á því sem upp kemur í starfseminni. 

Aðstaða og skilyrði 

Skilyrðin eru einkum eftirfarandi: 

  • Húsnæðisaðstaða; gott og þægilegt rými til að taka á móti gestum inn af götunni, innanbæjar í Grundarfirði (miðsvæðis eða því sem næst er kostur) og að aðgengi sé gott fyrir sem flesta. Ennfremur þarf að vera hægt að koma fyrir bæklingum þjónustuaðila sem þess óska og sem alla jafna eru/hafa verið aðgengilegir í upplýsingamiðstöð bæjarins. 

  • Starfsfólk; að viðkomandi hafi til staðar starfsfólk eða geti ráðið viðbótarstarfsfólk sem býr yfir þjónustulund og færni til að upplýsa og aðstoða gesti. Skilyrði er að töluð sé íslenska og enska, fleiri tungumál eru kostur. 

  • Þekking og þjálfun; æskilegt er að starfsfólk hafi góða þekkingu á umhverfi og staðháttum í Grundarfirði/Snæfellsnesi, en fái annars þjálfun og leiðsögn. Það athugist að Svæðisgarðurinn Snæfellsnes býður árlega starfsfólki upplýsingamiðstöðva og ferðaþjónustu á Snæfellsnesi uppá fræðslu um svæðið og þjálfun í móttöku gesta.  

  • Skilyrði er að starfsfólk gæti kurteisi, hlutleysis og jafnræðis við störf sín, t.d. þegar benda þarf á þjónustu, þar sem fleiri en einn eru til staðar sem veita þjónustuna. 

Upplýsingar

Hafi rekstraraðilar áhuga á að taka verkefnið að sér, skal senda greinargerð með upplýsingum um framangreinda þætti, í síðasta lagi fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 29. maí nk. 

Frekari upplýsingar veitir bæjarstjóri í síma 430 8500 eða bjorg@grundarfjordur.is