Skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn hafa sett á dagskrá uppbyggingu á miðbæjarreit. Miðbæjarreitur samanstendur af fjórum samliggjandi lóðum, Hamrahlíð 6 og 8 og Grundargötu 31 og 33, samtals um 2600 m2 að flatarmáli. Á Grundargötu 31 stendur gamalt íbúðarhús sem bærinn keypti fyrir nokkrum árum, af skipulagsástæðum, og er það víkjandi. Hinar þrjár lóðirnar eru auðar, en þó er svæðið nýtt með tímabundnum stöðuleyfum.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 var unninn svokallaður "rammahluti" aðalskipulags, þar sem kafað var dýpra en annars er gert í aðalskipulagi og settar niður framtíðarsýn og forsendur fyrir uppbyggingu og starfsemi í miðbæ. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir blandaðri starfsemi, verslun og þjónustu og íbúðum á svæðinu, sem liggur á góðum stað í miðbæ, við aðalgötuna. Í vinnu sem fram hefur farið nú í janúar og febrúar er byggt á forsendum aðalskipulagsins. Leitast er við að skilgreina óskir og stefnu um hvaða starfsemi og uppbygging eigi heima á þessum reit og verður boðað til opins fundar með íbúum um þetta verkefni á næstunni, og lóðarréttindin síðan auglýst opinberlega.
Verkefnið um miðbæjarreit er tekið til vinnslu núna, í samræmi við áður ákveðna forgangsröðun bæjarstjórnar um skipulags- og uppbyggingarverkefni, þar sem önnur stór skipulagsverkefni eru nú að komast á lokastig, einkum deiliskipulag iðnaðarsvæðis vestan Kvernár og heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir Ölkeldudal. Önnur skipulagsverkefni sem unnið hefur verið að hjá skipulagsnefnd, hafnarstjórn og bæjarstjórn eru deiliskipulag hafnarsvæðis norður, Framnes og nú er í undirbúningi landfylling sunnan við Miðgarð og deiliskipulag suðursvæðis hafnar.
Hér má t.d. sjá tillögu um deiliskipulag Ölkeldudals sem nú er í auglýsingu. Þar er gert ráð fyrir þó nokkrum fjölda nýrra íbúða, við götur sem þegar eru til, þ.e. Ölkelduveg og Borgarbraut.
Þess má geta að til að ýta undir byggingu íbúðarhúsnæðis hafa bæjarstjórnir síðustu árin samþykkt að veita afslátt af gatnagerðargjöldum á tilteknum eldri lóðum, aðallega fyrir íbúðarbyggingar en einnig nokkrum iðnaðarlóðum. Yfir 30 íbúðir og iðnaðarhús hafa notið afsláttarkjara á gatnagerðargjöldum á árunum 2017-2024, séu taldar með íbúðir á lóðum sem úthlutað var á síðasta ári og nú eru í undirbúningi.
Hér má sjá hvaða lóðir njóta afsláttar gatnagerðargjalda í dag, en sú samþykkt bæjarstjórnar gildir út árið 2025.