Þann 20. apríl sl. komu nokkrir Frakkar í heimsókn til Grundarfjarðar. Þau eru skipuleggjendur siglingakeppninnar Skippers D’Islande sem farin verður í júní-júlí á þessu ári. Heimsókn Frakkanna var liður í undirbúningi keppninnar og voru skoðaðar aðstæður í Grundarfjarðarhöfn og -bæ.

Siglingakeppnin hefst í Primpol í Frakklandi, vinabæ Grundarfjarðar, þann 24. júní nk. Siglt verður um 1.210 mílna leið til Reykjavíkur og þaðan haldið til Grundarfjarðar.

 

Skippers D´Islande er siglingakeppni sem haldin er til að minnast frönsku Íslandssjómannanna sem stunduðu þorskveiðar við strendur Íslands í þúsundatali á 18. og 19. öld. Margir þeirra snéru ekki aftur til heimkynna sinna. Keppnin er skipulögð af einstaklingum í bænum Paimpol á Brittaníuskaga í Frakklandi og var fyrst haldin árið 2000 og þá tóku 12 seglskútur þátt. Árið 2003 komu 11 bátar til hafnar og í ár verður siglt Paimpol – Reykjavík – Grundarfjörður – Paimpol og hafa nú þegar 24 bátar skráð sig til þátttöku.