- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á fundi bæjarráðs 26. ágúst 2011 var samþykkt meðfylgjandi umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða:
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Grundarfirði, 26. ágúst 2011.
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 827. mál.
Grundarfjarðarbær telur mikilvægt að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða styrki veiðar og vinnslu í sjávarbyggðum. Áríðandi er að allar breytingar á stjórn fiskveiða verði til þess að auka enn frekar arðsemi greinarinnar. Mikilvægt er að óvissu sem ríkt hefur um stjórn fiskveiða sé eytt en frumvarpið er ekki til þess fallið að skapa frið um nýtingu sjávarauðlindarinnar. Í frumvarpinu er vikið frá niðurstöðu sáttanefndar þar sem víðtæk sátt náðist.
Tekið er undir það ákvæði frumvarpsins að nauðsynlegt sé að fram komi með skýrum hætti í lögum að allar auðlindir þjóðarinnar séu í þjóðareign.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun á auðlindagjaldi. Grundarfjarðarbær mótmælir að eingöngu sé lagt auðlindagjald á sjávarútveg en ekki á aðrar auðlindir þjóðarinnar. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt við skattlagningu á auðlindum.
Tímalengd nýtingarréttar samkvæmt frumvarpinu er of stuttur og færi nær að samningstími væri um 25 ár. Styttri samningstími nýtingarréttar mun skapa mikla óvissu og takmarka fjárfestingar í greininni.
Á Snæfellsnesi byggist sjávarútvegur á smærri útgerðum. Frekari takmarkanir á framsali veikir rekstrargrunn þessara fyrirtækja og ýtir undir samþjöppun í greininni.
Í II. ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skel- og rækjubætur falli úr gildi að loknu fiskveiðiárinu 2015/2016. Ef af því verður er rekstrargrundvöllur stórlega skertur hjá þeim aðilum sem áður byggðu á skelveiði.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherravald sé aukið mjög mikið. Óviðunandi er að ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar þurfi að búa við einhliða ákvörðunarvald ráðherra á hverjum tíma.
Verði frumvarpið að lögum mun það auka enn óvissu í greininni og stórskaða rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja og veikja búsetuskilyrði í Grundarfirði.
Virðingarfyllst,
Björn Steinar Pálmason,
bæjarstjóri