Á fundi bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa í Reykjavík í dag með dr. Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi hjá Íslenskum orkurannsóknum og fleiri sérfræðingum hjá ÍSOR, framkvæmdastjóra Ræktunarsambands Flóa og Skeiða og fleirum, var rætt um stöðuna í heitavatnsboruninni á Berserkseyri. Borun hefur verið hætt í bili, en næst á dagskrá er að vinna að dæluprófun holunnar og frekari rannsóknum.

Eins og sagt hefur verið frá hér á Grundarfjarðarvefnum  hættu bormenn tilraunum sínum, sem staðið höfðu í 6 vikur, til að ná brotnum borstöngum upp úr vinnsluholunni, þann 2. júní sl. Borunin náði niður í  rúma 550 metra þegar verkið stöðvaðist og var þá búið að hitta á fyrri vatnsæð af tveimur sem ætlunin hafði verið að ná í, en alls átti að bora niðrá 900-1000 metra dýpi. Um skáholuborun er að ræða og var halli holunnar í um 30° undir lokin. Holan virðist gefa allt að 30 l/sek og hiti vatnsins um 79° í holubotni, sem er mjög góð niðurstaða út af fyrir sig. Þörf Grundfirðinga er um 21-25 l/sek.

 

Sá möguleiki er í stöðunni að halda borun áfram síðar, en á fundinum kom fram að ráðlegast er að láta staðar numið í bili og ráðast í frekari rannsókn á borholunni og  vatninu í henni, sem ekki var mögulegt að gera meðan á borun stóð. Afla þarf upplýsinga um niðurdrátt, hugsanlega sjóblöndun og ,,hegðun" vatnsins í holunni, í samhengi við upplýsingar um efnainnihald vatnsins.

Áætlað er að þær rannsóknir geti tekið allt að 6 mánuðum, en hugsanlega skemmri tíma ef niðurstöður gefa mjög eindregnar vísbendingar fyrr.

Lagt er til að ákvörðun um frekari borun, í sömu holu eða hugsanlega á annarri holu til að hitta neðri æðina, verði tekin þegar þessar niðurstöður liggja fyrir að hluta eða öllu leyti.