- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
„TónVest” kallast árlegt samstarfsverkefni tónlistarskólanna á Vesturlandi. Verkefnið hefur orðið viðameira með hverju árinu og er í ár að hluta til styrkt af MenningarráðiVesturlands. Völdum nemendum úr hverjum skóla hefur verið safnað saman til að æfa „Íslenska þjóðlagasvítu” sem sérstaklega er útsett af Marteini Markvoll, trompetleikara og kennara við Tónlistarskólann í Stykkishólmi. Verkið er síðan flutt í heimabæ allra tónlistarskólanna sem að Tónvest koma, og telur tónleikaröðin alls sex tónleika.
Tónlistarskóli Grundarfjarðar hafði veg og vanda af undirbúningi fyrstu tónleikanna, sem haldnir voru í þétt setnum hátíðasal Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Grundarfirði síðastliðinn sunnudag, við góðar undirtektir. Í tengslum við tónleikana voru hljómsveitarmeðlimir í æfingabúðum í Grundarfirði helgina 29. febrúar til 2. mars, undir styrkri stjórn Önnu Bjarkar Nikulásardóttur hljómsveitarstjóra. Aðrir tónleikar „TónVest” hljómsveitarinnar voru svo haldnir síðar sama dag í Klifi Ólafsvík.
Helgina 8. til 9. mars verða síðan tónleikar sem hér segir:
Laugard. 8 mars,- kl. 14:00 í Félagsheimilinu Árbliki í Miðdölum.
Og sama dag kl. 18:00 í Stykkishólmskirkju.
Sunnud. 9 mars,- kl. 14:00 í sal Tónlistarskólans á Akranesi.
Og sama dag kl. 17:00 í Borgarneskirkju.