- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skólamót Tónlistarskólanna á vesturlandi.
Skólamót tónlistarskólanna á vesturlandi fór fram í Hótel Stykkishólmi í gær miðvikudaginn 28.febrúar.
Sex skólar tóku þátt: frá Akranesi, Borgarfirði, Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi og Búðardal.
Kennarar og skólastjórar mættu til leiks ásamt hópi nemenda frá hverjum skóla en okkar fulltrúar í mótinu voru meðlimir í Skólahljómsveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Alls voru saman komnir u.þ.b. 140 hljóðfæraleikarar og skapaðist mikil og góð stemming.
Hólmarar tóku vel á móti gestum með léttri hressingu og síðan hófst dagskráin.
Byrjað var á samæfingu allra nemenda og unnið með tvö lög frá afríku (sem nemendur okkar hér þekkja vel frá þemadögunum). Síðan var tekið matarhlé og upphófst þá mikil pizzaveisla. Eftir hádegi fengu skólarnir síðan tækifæri til að æfa sín atriði en hver skóli var með tvö lög undirbúin til að flytja fyrir nemendur hinna skólanna.
Kl.14 hófust síðan tónleikarnir þar sem skólarnir fluttu sín atriði, þ.e. tvö lög hver,
en að lokum var svo talið í „Risa-samspil“ allara skólanna þar sem u.þ.b. 140 manna hljómsveit flutti lögin tvö frá afríku.
Haldið var heim á leið eftir vel heppnaðan dag um kl.16.
Við færum nágrönnum okkar í Stykkishólmi bestu þakkir fyrir gott skipulag, frábæran dag, og góðar móttökur.
Að ári liðnu kemur það svo í hlut okkar Grundfirðinga að halda mótið.