- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Tilnefningar til Íþróttamanns Grundarfjarðar 2022
Þrjár tilnefningar bárust til kjörs á íþróttamanni Grundarfjarðar árið 2022 og verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsinu á gamlársdag, laugardaginn 31. desember kl. 11:00.
Við sama tækifæri verða sjálfboðaliðar heiðraðir fyrir óeigingjörn störf í þágu íþrótta- og tómstundalífs í Grundarfirði og sængurgjöf samfélagsins afhent foreldrum barna sem fæddust árið 2022.
Þær þrjár tilnefningar sem bárust til íþróttamanns Grundarfjarðar 2022 komu frá Hestaeigendafélagi Grundarfjarðar, Skotfélagi Snæfellsness og Golfklúbbnum Vestarr og eru eftirtalin tilnefnd:
Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir - Hestaeigendafélag Grundarfjarðar
Harpa Dögg hefur verið í fremstu röð á landsvísu í hestaíþróttum í sínum aldursflokki undanfarin ár. Harpa Dögg keppir í Meistaradeild Líflands og æskunnar, sem er keppni í hæsta flokki í hennar aldurshópi. Á opnu WR íþróttamóti Sleipnis var hún í úrslitum í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í. Sömuleiðis var hún valin í U-21 landslið Íslands í hestaíþróttum á árinu og fór til Álandseyja og keppti þar í tölti T1. Hún endaði þar í öðru sæti í B-úrslitum sem verður að teljast frábær árangur.
Sigurþór Jónsson - Golfklúbburinn Vestarr
Sigurþór varð klúbbmeistari karla 2022 hjá GVG, Golfklúbbnum Vestarr Grundarfirði. Hann er einnig forgjafalægsti kylfingur klúbbsins og var í sveit félagsins sem sigraði 5. deild á Íslandsmóti golfklúbba sem var haldið á Höfn í Hornafirði á árinu. Á mótum sumarsins var hann í flestum tilfellum með besta skor í höggleik.
Unnsteinn Guðmundsson - Skotfélag Snæfellsness
Unnsteinn hefur verið einn fremsti skotíþróttamaður félagsins um árabil og hefur tekið þátt í flestum mótum sem félagið hefur haldið og keppt fyrir hönd félagsins á öðrum mótum. Unnsteinn hefur ætíð verið duglegur við að miðla reynslu sinni sem skotmaður til nýrra skotmanna, sérstaklega nýliða sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni.