Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra fór um Snæfellsnesið í dag og hélt fundi með sveitarstjórnarfóki og fleirum. Ráðherrann vildi m.a. kynna sér frá fyrstu hendi stöðu mála í Green Globe verkefninu. Mörg önnur umhverfismálefni voru einnig rædd og nefna má t.d.; úrbætur í frárennslismálum, lög um verndun Breiðafjarðar, frumvörp um skipulags- og mannvirkjamál, friðlýsingar, Þjóðgarðinn, upptöku votlendis Breiðafjarðar á Ramsar skrá o.fl. o.fl. Eftir heimsókn til Stykkishólms kom ráðherrann til Grundarfjarðar þar sem haldinn var
fundur með bæjarráði Grundarfjarðarbæjar og bæjarstjóra. Að loknum fundi með fulltrúum bæjarstjórnarinnar hélt ráðherrann í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og síðan til Snæfellsbæjar.
Ráðuneytisstjóri og aðstoðarfólk ráðherra voru með í för auk alþingismannanna Guðbjarts Hannessonar og Karls V. Matthíassonar. Þórunn Sigþórsdóttir, starfsmaður Green Globe á Snæfellsnesi fylgdi ráðherranum og fylgdarliði um byggðarlögin á Snæfellsnesi. Ánægjulegt er þegar ráðherrar gefa sér tíma til þess að fara um landið og kynnast fólki og viðhorfum þess til margvíslegra málaflokka sem ekki er endilega hampað daglega í umræðu á Alþingi eða í fjölmiðlum.