Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar 8. september var samþykkt samhljóða að taka þátt í stofnun svæðisgarðs á Snæfelsnesi. Grundarfjarðarbær var því fyrsta sveitarfélagið til að samþykkja með formlegum hætti þátttöku í þessu sameiginlega verkefni Snæfellinga.

Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða: 

„Einstök náttúra og sterk ímynd Snæfellsness er auðlind. Sú auðlind verður best nýtt og varðveitt með samstarfi Snæfellinga. Með þetta að leiðarljósi samþykkir bæjarstjórn Grundarfjarðar að taka þátt í stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Ákvörðunin er tekin með hliðsjón af verkefnistillögu sem undirbúningshópur skipaður fulltrúum sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og aðila í atvinnulífinu hefur unnið að. 

 

Bæjarstjórn samþykkir jafnframt að taka þátt í að afla fjármagns til verkefnisins og að hefja gerð svæðisskipulags um svæðisgarð með skipun svæðisskipulagsnefndar, sbr. 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn felur bæjarráði að skipa fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd.


Bæjarstjórn telur að stofnun svæðisgarðs muni marka þáttaskil í samstarfi og sókn Snæfellinga til framtíðar.“