Stjórn Félags atvinnulífsins í Grundarfirði (FAG) vill þakka kærlega öllum þeim sem komu að sýningunni Heimurinn okkar síðastliðinn laugardag, sýnendum, unglistamönnum og gestum. Yfir fjörutíu aðilar tóku þátt og voru básarnir hver öðrum glæsilegri. Var mál manna að sýningin sýndi ekki bara svart á hvítu hina miklu fjölbreytni í atvinnulífinu hér á svæðinu heldur einnig jákvæðni og kraft íbúanna. Hér má sjá skemmtilegar myndir frá sýningunni sem Tómas Freyr Kristjánsson tók. Þær tala sínu máli.

Þegar FAG var stofnað árið 1997 var markmið þess að „vinna að framfaramálum í Grundarfirði og vera vettvangur fyrir hugmyndir og umræður um málefni því tengdu“. Það má segja sá neisti sem var upphafið að stofnun FAG  hafi verið nánast útkulnaður. Það var því ákveðið að reyna að blása lífi í glæðurnar. Sótt var um styrk í Vaxtarsamning Vesturlands til endurskipulagningar og hugmyndavinnu sem fékkst og hefur hann verið nýttur til að fara ofan í saumana á starfi FAG og gera áætlun um hvernig það skuli þróast.

Afraksturinn af þeirri vinnu er nú að koma í ljós. Auk þessarar sýningar má telja ýmislegt:

Annan hvern þriðjudag eru haldnir opnir hádegisfundir í Sögumiðstöðinni þar sem fólk hittist, fær sér súpu og ræðir málin. Fundirnir eru óformlegir og hafa sýnt sig sem prýðilegan vettvang til að efla tengsl atvinnurekenda og um leið frjóan jarðveg fyrir spennandi hugmyndir. FAG hefur einnig gefið frá sér boltann sem framkvæmdaraðili hátíðarinnar „ Á góðri stund í Grundarfirði“, en það var gert til að kraftar þess geti farið óskiptir í eflingu atvinnulífsins. Sumarhátíðin hefur þegar fengið nýja stjórn skipaða fulltrúum hverfanna ásamt einum fulltrúa FAG.

Lög félagsins hafa verið endurskoðuð og endurbætt ásamt því að rýnt hefur verið  í hvað olli því að félagið færðist frá upphaflegu hlutverki sínu. Þessi atriði og fleiri verða kynnt ítarlega á aðalfundi FAG sem haldinn verður þriðjudaginn 29. mars nk., kl. 17:00, og er það von stjórnar að sem flestir láti sjá sig og taki þannig þátt í að endurvekja FAG með stæl.

Svo eru fleiri spennandi verkefni í farvatninu. Fyrir sumarið stendur til að setja upp ný þjónustuskilti við bæjarmörkin þar sem hin gömlu voru orðin úrelt og úr sér gengin. Sett hefur verið í gang samkeppni um lógó fyrir FAG. Þeir sem vilja taka þátt geta skilað sinni hugmynd inn til markaðsfulltrúa Grundarfjarðarbæjar, en skilafrestur rennur út mánudaginn 4. apríl. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þrjár bestu tillögurnar.

Nú þegar er hafin umræða um að endurtaka leikinn að ári og setja upp nýja sýningu. Stjórn FAG hefur mikinn áhuga á að gera þetta enn betur að ári og horfir til þess möguleika að þá verði allt Snæfellsnesið undir, enda eindregin skoðun stjórnar að líta beri á Snæfellsnesið sem eitt atvinnusvæði. Það geri alla viðleitni til framfara og uppbyggingar markvissari og áhrifaríkari.

Þeir fiska sem róa.

Þessi orð eru sönn nú sem ætíð. Nú er ekki tíminn til að leggja árar í bát. Við þurfum að berjast fyrir því sem við viljum og það er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu. Þá vinna allir.

 

Stjórn Félags atvinnulífsins í Grundarfirði