Eins og fram kom í frétt á vef bæjarins í janúar sl. er sú breyting gerð frá janúar 2024 að Grundarfjarðarbær tekur að sér að annast hreinsun rotþróa frá heimilum og sumarhúsum í dreifbýli en leggur á sérstakt hreinsigjald til að standa undir þeirri þjónustu.

Virkjað er ákvæði í 6. gr. fráveitusamþykktar Grundarfjarðarbæjar um hreinsun rotþróa, sem segir: "Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá fráræsum húseigna um rotþrær og siturleiðslur [...] Húseigandi kostar niðursetningu og annan frágang rotþróa og lagna. Húseigandi kostar allt viðhald, en sveitarfélagið sér um hreinsun rotþróa."

Grundarfjarðarbær hefur nú samið við fyrirtækið Hreinsitækni ehf. um tæmingu rotþróa næstu árin. 

Þriðjudaginn 9. júlí 2024 verður Hreinsitækni á ferðinni að hreinsa rotþrær í dreifbýlinu. 

Haft verður samband við eigendur fasteigna í dreifbýli mánudag 8. júlí nk. og nánari upplýsingar munu þá liggja fyrir um fyrirkomulag hreinsunar. 

Hér má sjá leiðbeiningar/upplýsingar um hreinsun rotþróa á vef Hreinsitækni.