- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Byggðastofnun hefur kynnt sveitarfélögum að á næstunni verði efnt til samkeppni meðal sveitarfélaga um þróunarverkefni undir yfirskriftinni ,,Rafrænt samfélag”. Er það liður í framkvæmd á byggðastefnu Alþingis 2002-2005 og hefur bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkt að sækja um þátttöku í verkefninu, eins og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni.
Markmiðmeð verkefninu er ,,að skapa aðstæður á landsbyggðinni þar sem íbúar geti nýtt sér þann ávinning sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin býður upp á. Í hugmyndinni felst að byggðarlag marki sér framtíðarsýn um notkun á upplýsinga- og fjarskiptatækni á nýjan og frumlegan hátt, íbúum og fyrirtækjum til hagsældar” eins og segir í bréfi frá Byggðastofnun.
En Grundfirðingar höfðu þegar verið farnir að hugsa um ,,rafrænt samfélag”. Á árinu 2001 hafði bæjarstjórn í samvinnu við Atvinnuráðgjöf Vesturlands hleypt af stokkunum sérstöku verkefni undir yfirskriftinni ,,Tæknibærinn Grundarfjörður.
Í verkefnisstjórn sitja Sigríður Finsen, Þórður Magnússon og Ólafur Sveinsson frá Atvinnuráðgjöf Vesturlands. Starfsmaður var Una Ýr Jörundsdóttir, sjávarútvegsfræðingur. Skýrsla með niðurstöðum um verkefnið var kynnt á opnum fundi þann 4. nóvember sl. (sjá m.a. í bæjardagbók þann dag).
Í framhaldi af því tók Benedikt Ívarsson kerfisfræðingur, búsettur í Grundarfirði, að sér fyrir verkefnisstjórn að vinna að frágangi tillagna um verkefnið.
Ákveðið var að kalla saman nokkra aðila til skrafs og ráðagerða og til að fá fram skoðanir hins almenna íbúa, gróinna og nýkominna, fulltrúa fyrirtækja, iðnaðar, þjónustu, neytenda, o.s.frv.
Í dag hittist þessi hópur, vel á annan tug íbúa í Grundarfirði, á kynningar- og hugarflugsfundi í fjarnámsverinu í Smiðjunni.
Fólkinu hefur verið stillt upp í þrjá hópa og munu þeir taka til umfjöllunar ýmsar hugmyndir til hagsbóta eða nýjunga í samfélaginu með hagnýtingu upplýsingatækni í huga á sviðum stjórnsýslu, menntunar og menningar og atvinnulífs.
Meira um þetta síðar.....