- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Laugardaginn 2. júlí 2005, kl. 14.00 opnar sýning í Norska húsinu í Stykkishólmi tileinkuð samfelldum veðurathugunum á Íslandi í 160 ár.
Magnús Jónsson veðurstofustjóri opnar sýninguna og þá verða einnig vígð 19. aldar útihitamælir og úrkomumælir sem Veðurstofa Íslands hefur sett upp við Norska húsið. Sýningin er opin daglega frá kl. 11.00 til 17.00 og stendur til 1. ágúst 2005.
Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla setur sýninguna upp í samvinnu við Veðurstofu Íslands í tilefni af því að 160 ár eru liðin síðan veðurathuganir hófust í Stykkishólmi. Hafa veðurmælingar verið gerðar þar óslitið síðan og því telst Stykkishólmur vera elsta veðurstöð á Íslandi.
Árni Thorlacius (1802-1891) |
Árið 1845 urðu þáttaskil í sögu veðurathugana á Íslandi þegar Árni Thorlacius, kaupmaður og útgerðarmaður í Stykkishólmi hóf að skrá veðurmælingar sínar. Árni sinnti veðurathugunum sínum af mikilli nákvæmni og alúð og eru mælingar hans óvenju þéttar og er mögulegt að bera saman fleiri en eina loftvog og hitamæli, t.d. mældi hann hita á Farenheit, Celsius og Reaumer mæla. Auk þess sinnti Árni öðrum fræðistörfum, m.a. rannsakaði hann tímatal og örnefni í Íslendingasögunum, gerði ættartölur,
skrifaði kennslubók í sjómannafræðum og aðra bók um skyldur húsbænda gagnvart vinnuhjúum sínum. Þá tók hann virkan þátt í sjálfstæðisbaráttunni og skrifaðist m.a. á við Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson um ýmis hugðarefni sín.
Árni flutti viði í íbúðarhús sem hann hugðist reisa, frá Arendal í Noregi og var húsið byggt árið 1832. Húsið stendur enn og ber heitið Norska húsið. Norska húsið er um 500 fm. og var um áratuga skeið eitt af þremur stærstu húsum landsins og fyrsta tvílyfta íbúðarhús landsins.
Norska húsið er nú í eigu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla. Á miðhæð Norska hússins hefur verið sett upp heimili Árna og Önnu Thorlacius “Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld”. Á jarðhæð eru sýningarsalir og Krambúð þar sem hægt er að fá vandað handverk, listmuni, minjagripi, póstkort, bækur og gamaldags nammi, gamalt leirtau og fleiri forvitnilegar vörur. Í risinu er opin safngeymsla þar sem safngestir geta glöggvað sig á hinum miklu viðum sem húsið er byggt úr og upplifað stemmingu liðins tíma á annan hátt en á neðri hæðunum.
Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að mæta á opnunina.
Starfsfólk Norska hússins