- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Í gærkvöldi komu upp ný smit í Grundarfirði og hefur það m.a. áhrif inní leikskólann. Það var viðbúið, enda staðan í þjóðfélaginu þannig þessar vikurnar. Sjá frétt frá því í gærkvöldi.
Foreldrar fengu bréf frá leikskólastjóra seint í gærkvöldi og svo aftur, frekari upplýsingar, um kl. 11:30 í dag.
Nú í morgun hafa þau börn sem þess þurfa, verið skráð í sóttkví og foreldrar eiga að hafa fengið skilaboð um það.
Hluti starfsfólks leikskólans er einnig kominn í sóttkví, einkum af músadeild en einnig öðrum deildum.
Börn og starfsfólk sem ekki voru skráð í sóttkví ættu samt endilega að sýna aðgæslu nú um helgina.
Í samvinnu við HVE hefur verið ákveðið að skimun verður í boði á morgun, sunnudaginn 9. janúar kl. 9:00 á heilsugæslustöðinni hér í Grundarfirði.
Hverjir þurfa eða mega fara í sýnatöku?
Allt starfsfólk leikskólans:
Til þess að reyna að hefja skólastarf á ný mánudaginn 10. janúar, með sem bestum hætti með tilliti til smita, hefur verið ákveðið að allt starfsfólk leikskólans fari í skimun.
Börn sem eru með einkenni
Það er mikilvægt að öll börn með einhver einkenni fari í sýnatöku. Þetta gildir um börn á öllum deildum leikskólans.
Sýnatöku þarf að bóka á vefnum heilsuvera.is
Hér má lesa um Einkenni COVID-19
Hvernig skrái ég mig í sýnatöku?
Nauðsynlegt er að fólk skrái sig sjálft í sýnatöku inni á vefnum heilsuvera.is með því að fara í gegnum
Mínar síður (skrá sig inn með rafrænum skilríkjum) => velja Covid-19 => velja Bóka einkennasýnatöku
Þegar við í Grundarfirði bókum okkur í sýnatöku veljum við sýnatökustaðurinn “Akranes” og svo er hakað við “Einkenni”, ef við á, en annars “Að beiðni rakningarteymis” (ef barn eða fullorðinn er einkennalaus). Við skráningu fáum við strikamerki í símann okkar og það er nauðsynlegt að sýna þetta strikamerki þegar við mætum í sýnatöku. Best er að skrá sig sem fyrst svo strikamerkið verði komið í tæka tíð.
Það má líka minna á gott netspjall inná vefnum heilsuvera.is og inná vefnum covid.is þar sem hægt er að bera upp spurningar eða vangaveltur og fá frekari leiðbeiningar.
Samstaðan er dýrmæt
Góða vísan er þessi: Stillum snertingu í hóf og þvoum okkur oft um hendurnar. Það er einfalt og mjög áhrifaríkt að spritta. Notum grímur og forðumst margmenni!
Þakkir til íbúa, nú sem fyrr, fyrir að sýna sínar bestu hliðar og gera allt sem við getum til að hindra útbreiðslu smita, okkar sjálfra vegna og allra hinna.
Með góðri kveðju,
Björg, bæjarstjóri