Árleg bæjarhátíð Grundfirðinga „Á góðri stund í Grundarfirði“ var haldin um helgina.

Besta hátíð hingað til, sögðu margir og víst er að hátíðin tókst með eindæmum vel.   

 

Um fjögurleytið á föstudeginum var fjöldi fólks saman kominn í grillveislu fyrir utan veitingastaðinn Kaffi 59, þar sem Idol-stjarnan Kalli Bjarni var mættur á æskuslóðir, en hann ólst upp í Grundarfirði. Kalli Bjarni og hljómsveit skemmtu einnig gestum á dansleik sem haldinn var í samkomuhúsinu á laugardagskvöldið.

Í Sögumiðstöðinni afhenti Reynir Ingibjartsson bæjarstjóra kort af mið-Snæfellsnesi sem hann hefur unnið (sjá nánari frétt síðar) og opnuð var sýningin Sjósókn fyrri tíma. Þar var til sýnis báturinn Brana SH 20 og ný gestastofa sem vígð var 16. júní sl.  

„Sveitt og svöl í Grundó“, söngskemmtun kennd við Vorgleðihóp fjölmargra heimamanna, hélt uppi dúndurstemmningu á föstudagskvöldinu, eftir að Árni Johnsen hafði hitað upp með bryggjusöng á hafnarsvæðinu.

 

Laugardagurinn rann upp, svo ótrúlega bjartur og fagur, sumar, sól og á annað hundrað gestir í sundi fyrir hádegi. Uppúr hádegi fjölmennti mannskapurinn á skemmtun á hátíðarsvæðinu við höfnina en þar voru einnig sölubásar með veitingum og öðrum varningi.

 

Í aðdraganda hátíðar hafði bænum verið skipt upp í fjögur „hverfi“, gula, rauða, græna og bláa hverfið. Hvert hverfi hélt svo sameiginlega grillveislu á laugardeginum fyrir hverfisbúa og gesti þeirra, sem síðan gengu fylktu liði í fjórum litríkum skrúðgöngum að hátíðarsvæði þar sem allar skrúðgöngurnar sameinuðust í fjölskrúðugan regnboga. Hverfin skemmtu hvert öðru með heimatilbúnum og vel undirbúnum atriðum og að þeim loknum hófst bryggjuball með tríóinu Feik. Carnival-stemmningin í hverfaveislunum og skrúðgöngunum var engu lík, fyrir utan það að hverfabúar höfðu tekið sig saman og skreytt hús sín og umhverfi, hvert í kapp við annað.

 

Þess má að lokum geta að hátíðarhöldin fóru mjög vel fram, ró yfir fólki sem skemmti sér vel og að sögn lögreglu var ekki eitt einasta útkall í bænum alla helgina.

 

Fjölmargt annað var í boði þessa hátíðarhelgi sem reynt verður að gera skil hér á næstu dögum, og eins munu hér birtast myndir á síðunni á morgun.