- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú er kosning utan kjörfundar hafin vegna sveitarstjórnarkosninga sem fram fara 26. maí nk. Samkvæmt auglýsingu Sýslumannsins á Vesturlandi frá 30. apríl sl. er ekki gert ráð fyrir því að Grundfirðingar geti kosið utan kjörfundar í heimabyggð.
Gerð hefur verið kröftug athugasemd við sýslumanninn vegna þessa og honum ritað bréf þar sem þess er farið á leit að mögulegt verði að kjósa utan kjörfundar í Grundarfirði. Dómsmálaráðuneytinu hefur einnig verið ritað bréf varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Grundarfirði.
Í svörum sínum vísar sýslumaðurinn til reglugerðar nr. 1151/2014 um sýslumannsumdæmi.
Á undanförnum árum hafa Grundfirðingar þurft að berjast fyrir rétti sínum til þess að kjósa utan kjörfundar í heimabyggð. Í komandi kosningum endurtekur sagan sig. Jafnræðisreglan virðist því ekki í heiðri höfð hvað þessi mál varðar.
Erindum til sýslumannsins og sómsmálaráðuneytisins verður fylgt eftir og reynt að fá lausn í málin. Vonast er til að slík lausn finnist eins og raunin hefur verið undanfarnar kosningar.
Bæjarstjórinn í Grundarfirði