Velferðaráðuneytið og Vinnumálastofnuna standa í sumar fyrir átaksverkefni til að fjölga störfum á vegum stofnana ríkisins og sveitarfélaga,  fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. 

Til verkefnins renna 250 milljónir kr. fá Atvinnuleysistryggingasjóði auk 106 milljóna kr. úr ríkissjóði. Mótframlagi ríkisins er ætlað að mæta viðbótarkostnaði stofnana þess svo unnt sé að greiða laun samkvæmt kjarasamningum en sveitarfélögin munu sjálf standa straum af þessum viðbótarkostnaði. 

Ráðningartíminn er tveir mánuðir í júní og júlí. Skilyrði fyrir ráðningu námsmanna er að þeir séu á milli anna í námi en atvinnuleitendur þurfa að vera á skrá Vinnumálastofnunar með staðfestan bótarétt. Nú er opið fyrir umsóknir og umsóknarfresturinn er til 8. maí.  Stefnt er að því að ljúka ráðningum um miðjan maí.

Á vegum stofnana ríkisins verða um 500 störf í boði en um 400 á vegum sveitarfélaga.

Efnt var til sambærilegs átaks síðastliðið sumar sem þótti takast afar vel og tryggði tæplega 900 námsmönnum og atvinnuleitendum sumarstörf.

Í Grundarfirði eru fimm störf í boði tengd þessu verkefni.