Um sumarstarfsemi á vegum áhaldahúss Grundarfjarðarbæjar

Undanfarin ár hefur sveitarfélagið rekið umfangsmikla starfsemi á sumrin, annars vegar með vinnuskólanum og hinsvegar með ráðningu starfsmanna í sumarstörf á vegum áhaldahússins.

Reynslan frá síðasta sumri með vinnuskóla og sumarstarfsmenn var ekki alveg sem skyldi. Mikil pressa var sett á bæjaryfirvöld að ráða ungmenni til starfa, þrátt fyrir að ljóst væri að fjöldi starfsmanna væri umfram verkefni sem fyrir hendi voru. Margt annað spilaði líka inn í. 

Mikil áhersla hefur verið lögð á að úr þessu verði bætt fyrir þetta ár og að reynt verði að gera starfsemina sem skilvirkasta.

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar þann 8. maí sl. var mörkuð stefna í málefnum vinnuskóla og starfsmannahaldi áhaldahúss fyrir komandi sumar, byggð á greinargerð og tillögum frá bæjarstjóra og verkstjóra. Megintilgangurinn var sá að skýra betur þarfir bæjarins fyrir starfsfólk og hvernig bærinn geti með bestum hætti komið á móts við þarfir þeirra sem sækjast eftir vinnu, auk þess að skoða hvernig fjármunum verði sem best varið í þágu bæjar og íbúa, með hliðsjón af hag starfsmanna.

Vinnuskólinn 

Við könnun á starfsemi vinnuskóla í nokkrum öðrum bæjarfélögum kom í ljós að börnum sem eru að ljúka 6. og 7. bekk grunnskóla er ekki boðin þátttaka í vinnuskóla eins og gert hefur verið hér um árabil. Þar að auki segir í reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 að heimilt sé að ráða ungmenni 13 ára og eldri til léttra starfa á sumarleyfistíma skóla, með ákveðnum skilyrðum, en þetta þýðir að óheimilt er að hafa í vinnuskólanum 6. bekkinga þ.e. yngsta árganginn sem við höfum boðið fram að þessu.

Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að fækka árgöngum í vinnuskólanum í tvo úr fjórum. Ennfremur lá að baki sú viðleitni eða stefna, að miða frekar við að hægt væri að bjóða eldri nemendum – á væntanlegum framhaldsskólaaldri – vinnu í lengri tíma. Vinnuskóli fyrir 8. og 9. bekkinga er af þeim sökum jafnhliða styttur úr 3 í 2 vikur, vinna hálfan daginn. Í sumar starfar vinnuskólinn frá 10. júní til 8. júlí og er hópurinn tvískiptur.

Verkefni verða með hefbundnu sniði, þ.e. fegrun og hreinsun umhverfisins, þó reynt verði að einhverju marki að brjóta upp hefðbundið mynstur og útvega ný verkefni.

Sumarstarfsmenn

Annar hluti sumarstarfseminnar á vegum áhaldahúss felst í því að ráða fólk til ýmissa starfa yfir sumartímann, s.s. í garðslátt og umhverfisvinnu, almenn störf í áhaldahúsi og ekki síst, flokksstjórn yfir unglingavinnu. Ráðnir voru 6 starfsmenn í slík störf yfir sumarið, en umsóknir voru öllu fleiri, eða ríflega 20. Stærstur hluti umsækjenda er ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Sextán ára unglingar falla í þennan hóp en eru ekki flokkaðir undir vinnuskóla, eins og gert er í sumum sveitarfélögum.

Það er alveg ljóst að ekki er hægt að búa til á þriðja tug starfa í heilt sumar, til þess að mæta óskum allra sem sækjast eftir vinnu. Sumir fá að vísu vinnu annars staðar, en til þess að geta komið á móts við þá sem ekki fá aðra vinnu voru gerðar ráðstafanir til að geta ráðið inn og skipt vinnu á milli þeirra, hluta sumars. Þannig má segja að nær allir umsækjendur hafi verið ráðnir í vinnu, þó misjafnlega lengi sé.

Samkvæmt þessu er unglingum sem verða 16 og 17 ára árinu (fædd 1986 og 1987) boðin vinna allan daginn í hálfan mánuð. Þetta er um 16 manna hópur og er vinnan bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið vinnu annars staðar.

Alls má því gera ráð fyrir að um 40 starfsmenn verði ráðnir í sumar í lengri eða skemmri tíma.  

Annað

Eins og fram hefur komið er mikilvægt að bærinn ræki vel hlutverk sitt sem vinnuveitandi, ekki síst þar sem börn og ungmenni eiga í hlut; að móta og kenna þeim vinnubrögð og gildi vinnu.

Jafnhliða ofangreindum ráðstöfunum var verkstjóra falið að skýra og skerpa á skólareglum í vinnuskóla og vinnureglum fyrir sumarstarfsmenn. Með hliðsjón af þeim verði reynt að auka og kenna mikilvægi aga og góðra vinnubragða, auk þess að beita hvatningaraðferðum. Það á að liggja alveg ljóst fyrir í upphafi sumars að umrædd störf eru eftirsótt og að gerð er krafa um góða ástundun og vinnuframlag, ella er eðlilegt að öðrum séu veitt tækifæri til starfsins. Þetta endurspeglaðist m.a. í skoðunum elstu bekkinga grunnskóla sem fram komu á málþingi þeirra sem haldið var í apríl sl. í samkomuhúsinu. Þau vilja skýra stjórnun og umbun í hlutfalli við það hversu vel verk eru af hendi leyst.

Vinnumarkaðurinn

Það er ljóst að á síðustu árum hefur orðið erfiðara fyrir unglinga að fá vinnu yfir sumartímann. Þarf ekki annað en að líta á tölur alls staðar á landinu til að sjá að það sama virðist vera í gangi á flestum stöðum. Það er auðvitað í takt við stöðuna á vinnumarkaði yfirhöfuð, en ef eitthvað er þá virðist samt vera auðveldara um sumarstörf á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundi fræðslunefndar bæjarins sl. mánudag var rætt um atvinnumál ungs fólks yfir sumartímann, ekki síst í ljósi þess að framhaldsskóli er væntanlegur á svæðið á næsta ári. Í umræðu fræðslunefndar komu fram þau sjónarmið og þær óskir, að vinnuveitendur almennt myndu gera það að stefnu sinni að reyna fremur að ráða eldri ungmenni – á framhaldsskólaaldri – í vinnu, umfram nemendur á grunnskólaaldri, þ.e.a.s. meðan framboð starfa er takmarkað og ekki er hægt að mæta óskum allra sem vilja vinnu. Þetta ætti við um sveitarfélagið og alla aðra vinnuveitendur og byggist á þeirri staðreynd að kostnaður við skólasókn og uppihald ungmenna eykst almennt þegar kemur á framhaldsskólaaldurinn og því nauðsynlegra að sá hópur geti aflað sér eigin tekna yfir sumartímann en börn á grunnskólaaldri. Þetta er einmitt sú hugsun sem liggur að baki þeim breytingum sem bæjarráð gerði á fyrirkomulagi vinnuskóla og sumarstarfsemi og lýst hefur verið.  

Þessum hugleiðingum nefndarinnar er hér með komið á framfæri.

Þá má einnig nefna það hér að Grundarfjarðarbær sótti um styrki til Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir skömmu til þess að ,,búa til” nokkur störf fyrir fólk á atvinnuleysisskrá og fékk jákvæða afgreiðslu á erindi sín.