Boðað til stofnfundar landgræðslufélags í Eyrarsveit

 
18. apríl 2007
Fyrir ári síðan var fólki með tengingu við sveitina í kringum byggðarkjarnann Grundarfjörð hóað saman í húsnæði verkalýðsfélagsins Stjörnunnar. Frumkvæðið að þessum fundi átti Gunnar Njálsson, formaður Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Á fundinn mættu margir landeigendur og aðrir áhugamenn en að auki fulltrúar frá Landgræðslu ríkisins þau Þórunn Pétursdóttir og Garðar Þorfinnsson. Kynntu þau hvað væri að gerast í landgræðslumálum og fjölluðu einnig um mögulega stofnun landgræðslufélags í Eyrarsveit. Kom þar fram að ef landeigendur og aðrir þeir sem hafa umráð yfir landssvæði í Eyrarsveit hyggðust fara út í uppgræðslu væri mun meiri möguleikar á að ná árangri og að sækja fjármagn til verkefnisins, ef um væri að ræða formlegt félag.

Síðan þá hafa nokkrir þeirra sem fundinn sátu unnið frekar að framgangi málsins með það í huga að stofnað verði slíkt landgræðslufélag og beina sjónum að Framsveit og nágrenni. Til stofnfundar er boðað á degi umhverfisins þann 25. apríl n.k. kl. 20.30 í Samkomuhúsinu Grundarfirði. Samkvæmt drögum að samþykktum fyrir félagið geta allir þeir sem eiga land í Framsveit og nágrenni gerst félagar með fullgilda aðild en jafnframt geta þeir aðrir sem áhuga hafa fyrir uppræðslu og skógræktarstörfum á svæðinu gerst félagar með málfrelsi og tillögurétti.

Samkvæmt drögum að samþykktum fyrir félagið er “tilgangur þess að bæta landkosti og endurheimta fyrri landgæði í úthaga í Framsveit og nágrenni þar sem félagsmenn telja þess þörf, m.a. með eftirfarandi hætti eins og kemur fram í 3. grein:
a) Að koma á samfelldri gróðurþekju þar sem æskilegt er talið og gróðurskilyrði og aðstæður gera það mögulegt.
b) Að vernda og hirða um skógarleifar.
c) Að auka skjól með trjágróðri og bæta þannig aðstæður til búskapar, útivistar og annarrar mannvista. Á stofnfundinn mætir Þórunn Pétursdóttir ásamt fleirum frá Landgræðslu Ríkisins og verða með kynningu á landgræðslustarfi.

(fréttatilkynning)  Tekið af vefnum www.skessuhorn.is