- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eins og áður hefur verið kynnt hér á heimasíðunni og í Vikublaðinu Þey, þá var starfsemi vinnuskóla og sumarvinna ungs fólks tekin til sérstakrar skoðunar af bæjarráði í vor og m.a. skerpt á markmiðum bæjarins í starfsmannahaldi sumarfólks og þjónustu fyrir sumarið.
Eitt af markmiðunum var að gera starfsemina skilvirkari og auka og kenna mikilvægi aga og góðra vinnubragða, auk þess að beita hvatningaraðferðum.
Vinnureglur voru settar fyrir sumarstarfsmenn, en í sumar voru ráðnir 6 starfsmenn í sumarvinnu og ca. 16 starfsmenn, 16 - 17 ára, fá að auki vinnu hluta sumarsins. Þannig eru alltaf um 8-9 manns í vinnu í sumar.
Ein af þeim aðferðum sem ákveðið var að beita til hvatningar er að velja starfsmann vikunnar. Unga fólkið, starfsmennirnir, var fengið til að ákveða sjálft við hvað ætti að miða í vali á starfsmanni vikunnar og settu þau eftirfarandi viðmið á blað;
- mæting
- dugnaður
- jákvæðni
- ,,útgeislun”
Fyrsti ,,starfsmaður vikunnar” í sumarvinnunni var valinn af samstarfsfélögum sínum, en það er Sveinn Bárðarson sem er starfsmaður vikunnar 2. til 6. júní. Sveinn var að útskrifast úr 10. bekk í síðustu viku og er sonur Dóru Aðalsteinsdóttur og Bárðar Rafnssonar.
Við þökkum Sveini fyrir vel unnin störf og óskum honum til hamingju með tilnefninguna!
Þess má geta að skólareglur voru einnig settar fyrir vinnuskólann, en hann tók til starfa sl. þriðjudag. Meira um starfsemi hans síðar.