Thora Karls og nemendur listavinnuskólans í ár við hluta af verkum sínum - málverk sem byggja á þema…
Thora Karls og nemendur listavinnuskólans í ár við hluta af verkum sínum - málverk sem byggja á þema um hlýnun jarðar.

Eins og fram kom í frétt á bæjarvef í júlí stóð Grundarfjarðarbær fyrir skapandi listavinnuskóla í ágúst.

Listavinnuskólinn er starfræktur í samstarfi við Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi og er hluti af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands. Starfsfólk vinnuskóla er á aldrinum 14-16 ára, en sá hópur hefur starfað við fegrun og umhirðu svæða innan sveitarfélagsins fyrr í sumar.

Með Listavinnuskólanum gefst unga fólkinu tækifæri til vinnu við skapandi greinar. Markmið verkefnisins er að búa til eitthvað enn skemmtilegra, hampa því óvænta, vera vettvangur róttækra tilrauna með umhverfið og gera svæði meira aðlaðandi þannig að fleiri vilji nýta.  

Í ár var boðið uppá verkefni undir fyrirsögninni "Aðstoðarmenn listamanns!"  Thora Karlsdóttir myndlistarmaður var umsjónarmaður Listavinnuskólans sem starfræktur var vikuna eftir verslunarmannahelgi. Unga fólkinu var boðið að taka þátt í daglegum störfum listamanns og var þeirra hlutverk að aðstoða listamanninn við undirbúning og framkvæmd á vinnslu á listaverkinu sjálfu. Einnig fengu þau að kynnast störfum listamannsins frá hugmyndavinnu að fullunnu verki, hjálpa til við framkvæmd, uppsetningu og annað sem felst í listsköpun. 

Föstudaginn 9. ágúst sl. var svo haldin sýning á afrakstri Listavinnuskólans. Þar mátti finna fordómaþvottavél, heilaþvottavél og málverk sem krakkarnir unnu sjálf um hlýnun jarðar. Gestum og gangandi var boðið í ókeypis fordómaþvott og heilaþvott þegar listamennirnir ungu afhjúpuðu verkin. Þvottavélarnar eru staðsettar neðst á Hrannarstíg og á miðbæjarsvæði og fá þær að standa áfram, eitthvað fram eftir hausti, og lífga uppá umhverfið.

Nokkrar myndir úr starfi Listavinnuskólans - krakkarnir og Þóra, og Lúðvík Karlsson, Liston á neðstu mynd, sem veitti hjálparhönd.

Unnið að listaverki   Listavinnuskólinn

Listasmiðja   Listavinuskóli og Lúlli