Bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur mótmælt harðlega boðuðum niðurskurði í læknisþjónustu í Grundarfirði, en bæjarstjórn hefur fylgst náið með málefnum heilsugæslunnar. Á fund bæjarstjórnar fimmtudaginn 10. janúar mættu forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar þar sem mótmælt er fyrirhuguðum niðurskurði læknisþjónustu. Afhentu fulltrúar þeirra, þær Eva Jódís Pétursdóttir og Hugrún Birgisdóttir, yfirlýsingu hópsins ásamt undirskriftarlista 350 íbúa Grundarfjarðar.

 

Bókun bæjarstjórnar:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðar mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði í læknisþjónustu í Grundarfirði. Samkvæmt áformum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands verða vaktsvæði heilsugæslulækna í Grundarfirði og Ólafsvík sameinuð um helgar frá og með vori. Það þýðir að aðra hverja helgi verður ekki læknir í Grundarfirði.

 

Með þessari ákvörðun er verið að raska áralöngum stöðugleika í læknisþjónustu í Grundarfirði en hingað til hefur ekki verið vandkvæðum bundið að manna stöðu læknis í sveitarfélaginu.

Ljóst er að álag á sjúkraflutninga mun aukast mikið. Sú alvarlega staða getur komið upp að löng bið verði eftir lækni og því er mikil ábyrgð lögð á herðar sjúkraflutningamanna. Sparnaður sem áætlaður er að náist fram með þessum ráðstöfunum er sáralítill, ef nokkur, þegar upp er staðið.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar hvetur stjórnvöld til að standa vörð um grundvallarþjónustu í heilsugæslu, en með skerðingu á henni er ráðist með grafalvarlegum hætti að öryggi íbúa og búsetuskilyrðum í sveitarfélaginu.“