Gunnar Njálsson
Gunnar Njálsson

 Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

 

Hlátrasköll og gleði, upplýsingar og undrun stóðu upp úr eftir síðasta spjallara og þökkum við Gunnari og Jóhönnu kærlega fyrir sína frásögn um sögu hússins á Hrannarstíg 5.

Spjallari kvöldsins að þessu sinni er ekki af verri endanum, en það er hann Gunnar Njálsson sem mun leiða spjallarann, ásamt fleirum. Gunnar er formaður skógræktarfélags Eyrarsveitar og sérlegur áhugamaður um huldufólk. 

Gunnar ætlar að nýta nátturufegurð Grundarfjarðarbæjar og hefja sína vegferð og sögustund á aðkomusvæði skógræktarinnar ofan Hönnugils, fyrir neðan Fellasneið kl. 20.

Gunnar, ásamt fleirum mun lesa um frásagnir og örlög Hellnafellsbæjarins sem stóð eitt sinn undir lægra Hellnafelli, ásamt því að huga að ýmsu sem býr í umhverfinu undir Fellunum.

Vissuð þið um tilurð skógræktar upp við rætur lægra Hellnafells?

Vitið þið af huldufólksbyggðunum í Fellunum og í sjálfu Hjaltalínsholtinu?

Vissuð þið um þann merka mann, lækni og landlækni Odd Hjaltalín sem bjó hér um tíma?

Hér í Grundarfirði og nágrennni eiga margir ættir sínar að rekja til Hjaltalíns ættarinnar.

Hvað um örlög og líf fólksins sem hér bjó fyrir hundruðum ára, hvernig var sú saga og hver urðu örlög síðustu íbúa gamla Hellnafells bæjarins sem stóð hér upp undir rótum lægra Hellnafells?

Það og margt fleira fáum við að vita um núna á fimmtudagskvöldið.

Lífið er núna og það vita spjallararnir og þess vegna komum við saman þorparar og gestir og njótum stundarinnar saman.

Vertu með!