Þann 14. janúar sl. kom verkefnisstjórn og starfsmaður þróunarverkefnis um Eyrbyggju – sögumiðstöð og sögugarð saman til fundar á bæjarskrifstofu, ásamt fulltrúa Atvinnuráðgjafar Vesturlands (ATSSV).

Tilefnið var að nú er lokið tilteknum áfanga í vinnu við verkefnið og var lögð fram skýrsla sem Ingi Hans Jónsson starfsmaður verkefnisins hefur unnið um möguleika á stofnsetningu sögumiðstöðvar í Grundarfirði og sögugarðs á Grundarkampi, sjá nánar í bæjardagbók þann 22. október 2002.

Verkefnið var styrkt af ATSSV og var Ólafur Sveinsson forstöðumaður ATSSV fulltrúi í verkefnisstjórninni, auk þess sem starfsmaður og verkefnisstjórn nutu dyggilegs stuðnings Ásthildar Sturludóttur ferðamálafulltrúa ATSSV. 

Í skýrslunni kemur fram að fyrsti áfangi sé að koma á laggirnar sjálfseignarstofnun um sögumiðstöðina, en gerður var samningur um kaup á húsnæði gömlu verslunarinnar Grundar undir starfsemi sögumiðstöðvar.

 

Í síðari áfanga er gert ráð fyrir að gera skil merkri sögu Grundarfjarðar­kaupstaðar á Grundarkampi, með sögugarði á kampinum. En sá áfangi bíður betri tíma.

 

Til að brúa það tímabil þar til sjálfseignarstofnun verður komið á fót um verkefnið, þótti nauðsynlegt að stofna ,,lögaðila” og fá kennitölu, sem á að vinna að undirbúningi sjálfseignarstofnunarinnar og m.a. fara með forsvar fyrir fasteignina sem keypt hefur verið. Tilgangur félagsins er í raun sá að leggja sjálft sig niður, því ætlunin er að boða sem fyrst til stofnunar sjálfseignarstofnunar um sögumiðstöðina.

 

Sótt var um kennitölu til Hagstofunnar fyrir áhugamannafélag undir því virðulega nafni ,,Blöðruskalli, grundfirskt sögufélag” en með því er skírskotað til Þórólfs blöðruskalla, sem var faðir Vestarrs sem var einn af þremur landnámsmönnum Eyrarsveitar. Golfklúbburinn okkar, Vestarr, ber einmitt nafn hans.

 

Í Landnámabók segir svo um þá feðga;

Vestar, sonur Þórólfs blöðruskalla, ...... fór til Íslands með föður sinn afgamlan og nam hann Eyrarland og á milli Kirkjufjarðar og Kolgrafarfjarðar og bjó á Öndurðri Eyri. Þeir Þórólfur feðgar eru báðir heygðir á Skallanesi.

 

Til fróðleiks má nefna að hinir landnámsmennirnir okkar gengu líka undir skemmtilegum nöfnum ef trúa má Landnámu, en þeir voru Herjólfur hokinrassi eða hrokkineista, sonur Sigurðar svínhöfða og svo hann Kolur sem bjó að Kolgröfum með sonum sínum. Gott að vita af þessu, ef einhvern vantar nafn á nýjan félagsskap, saumaklúbb, nú eða nýtt einkahlutafélag!