Fimmtudaginn 8. maí 2003 var ritað undir samning um undirbúning þess að gera Snæfellsnes að umhverfisvottuðum áfangastað ferðamanna.

Það var samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sem skrifaði fyrir hönd ráðuneytis síns undir samninginn við fimm sveitarfélög í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

Það eru Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Stykkishólmsbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit sem standa að verkefninu og mun undirbúningsvinna standa í 6 mánuði. Þegar þeirri vinnu lýkur er hægt að sækja um úttekt og fulla vottun hjá vottunarsamtökum sem nefnast Green Globe 21.

Snæfellsnesið er fyrsta svæðið á Íslandi þar sem slík úttekt og síðar vottun mun fara fram. Vottun sem þessi mun ekki bara koma ferðaþjónustunni til góða heldur fjölmörgum fyrirtækjum, t.d. í matvælaiðnaði. Ennfremur ætti vottunin að hafa góð áhrif á ímynd svæðisins.

Í fréttatilkynningu frá Samgönguráðuneyti segir eftirfarandi;

Gert er ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu verði stunduð með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stefnt er að vottun Green Globe 21, alþjóðlegra samtaka um sjálfbæra ferðaþjónustu, og munu samtökin koma að vottunarferlinu.
 
Vegagerðin og Ferðamálaráð munu veita faglega ráðgjöf vegna verkefnisins og veita m.a. aðgang að þolmarkarannsóknum á ferðamannastöðum. Green Globe mun útvega sérfræðinga sem hafa reynslu af undirbúningi, ráðgjöf og úttekt á stórum ferðaþjónustusvæðum.
 
Þess má geta að Ferðaþjónusta bænda vinnur að því að afla fyrirtækjum innan samtakanna Green Globe 21 vottunar. Hólaskóli sér um úttekt á fyrirtækjum með styrk frá samgönguráðuneytinu.
Nánar er hægt að lesa um verkefnið í ítarlegri frétt Guðrúnar G. Bergmann sem birt er á vef Snæfellsbæjar, smellið hér.