- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt á vef Skessuhorns 20. nóvember 2009: |
Síðasta miðvikudag var skrifað undir í Vatnasafninu í Stykkishólmi nýjan samstarfssamning um kennsluverkefni milli þriggja sveitarfélaga og grunnskóla á Snæfellsnesi og tveggja í Vestur-Barðastandarsýslu. Þetta eru sveitarfélögin Stykkishólmur, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Vesturbyggð og Tálknafjörður. Þau sameinast um verkefni sem kallast dreifmennt og njóta þar stuðnings menntamálaráðuneytis og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Að sögn Eyrúnar Sigþórsdóttur, oddvita Tálknafjarðarhrepps, hefur þetta verkefni verið við lýði milli nágrannasveitarfélaganna á Barðaströndinni síðustu árin og reynst vel. Nú er það fært yfir á Snæfellsnesið. Kennt er í gegnum fjarfundabúnað og tölvur til skólanna á svæðunum. |
Síðasta vetur voru kennd danska og eðlisfræði og í vetur verður það eðlisfræði. Eyrún segir að í raun sé hægt að kenna hvað námsgrein sem er og þessir kennsluhættir auki möguleikana á auknu námsframboði, ásamt því að nýta enn betur kennarana við skólana. „Ég held að þetta verkefni skapi möguleika á sparnaði í skólakerfinu og það auki einnig gæði og framboð námsefnis,“ segir Eyrún. Dreifmennt verkefninu hefur undanfarin ár verið stýrt af Eddu Kjartansdóttur hjá endurmenntunar- og símenntunardeild Háskóla Íslands. Núna tekur við stjórn verkefnisins Helgi Hjálmtýsson sem starfar á Bíldudal. |