- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Slökkvilið Stykkishólms, Grundarfjarðar og Snæfellsbæjar, munu laugardaginn 16. október halda sameiginlega æfingu liðanna á Gufuskálum. Þar munu þau nýta aðstöðu björgunarmiðstöðvarinnar sem hentar afar vel til æfingar sem þessarar. Fulltrúar Brunamálastofnunar verða viðstaddir æfinguna og leggja til búnað.
Á Gufuskálum er afbragðs aðstaða til alhliða björgunaræfinga, hvort heldur sem er í lofti, á sjó eða landi. Þar hefur verið útbúið rústabjörgunarsvæði á heimsmælikvarða og auðvelt er að hýsa stóra hópa fólks sem kemur lengra að, en um 80 uppbúin rúm eru í húsunum á Gufuskálum.
Á sameiginlegri æfingu slökkviliðanna laugardaginn 16. október á m.a. að æfa reykköfun, að klippa fólk úr bílflökum og einnig verða viðbrögð við eiturefnaslysum æfð. Fulltrúar Brunamálastofnunar koma með eiturefnagám til æfinga og svokallaðan yfirtendrunargám, sem ætlaður er til að sýna útbreiðslu elds og hvernig eldurinn hagar sér.
Laugardaginn 23. október n.k. verður svo haldinn í Stykkishólmi árlegur fundur slökkviliðsstjóra á Íslandi.